Órói á Svartárkoti vegna flóða í Skjálfandafljóti

Gunnar B. Guðmundsson, gg@vedur.is, 2002-01-17

Á sérhverri SIL jarðskjálftamælistöð er svokallaður óróafinnur (tremor detector, Einar Kjartansson, 1996) sem sendir samfelldar upplýsingar um óróa. Óróafinnurinn síar út mælingarnar í tíðnigluggunum 0.5-1 Hz, 1-2 Hz og 2-4 Hz fyrir alla ása mælisins þ.e. upp/niður, norður/suður og austur/vestur hreyfingu. Tekið er meðalútslag fyrir eina mínútu og upplýsingarnar eru sendar í SIL miðstöðina á 5 mínútna fresti (tremor log). Upphaflega var meginmarkmiðið með óróavakanum að fylgjast með eldgosaóróa en einnig er hægt að sjá jarðskjálfta (sjá toppana á myndunum hér að neðan), veðurlag, flóð, hlaup ofl.

Að kvöldi 6. janúar 2002 og einnig aðfaranótt 10. janúar 2002 komu fram flóðatoppar á óróanum á jarðskjálftamælistöðinni í Svartárkoti í Bárðardal (sjá myndir 1-5 hér að neðan). Stysta vegalengd í vestur frá mælinum að Skjálfandafljóti er um 3.8 km og í VNV í Aldeyjarfoss eru um 4.8 km. Best kemur flóðaóróinn fram í tíðniglugganum 1-2 Hz á austur/vestur ásnum (mynd 2). Einnig greinist hann vel í tíðniglugganum 2-4 Hz (mynd 3) en lítið sem ekkert í lægsta tíðniglugganum, 0.5-1 Hz (mynd 1). Fyrri flóðatoppurinn byrjar um kl. 23:43 þann 6. janúar 2002 (mynd 4) og varir hann fram undir kvöld þann 7. janúar. Sá síðari byrjar um kl. 03:21 þann 10. janúar 2002 (mynd 5) og varir hann fram yfir hádegi þann 11. janúar.

Mynd 6 sýnir mikinn óróatopp á SIL mælistöðinni í Flatey (fla) á Skjálfanda aðfaranótt þann 9. janúar 2002. Þessi óróatoppur kemur einnig fram á fleiri SIL stöðvum fyrir norðan en með miklu minna útslagi. Á þessum tíma er loftvog fallandi og um kvöldið þann 8. janúar hvessir verulega á svæðinu og mælist vindur um og yfir 20 m/s á veðurstöðvum í nágrenninu. Vind lægir að morgni þess 9. janúar. Vindátt er af SV og gengur hún líklega með miklum hviðum út Flateyjardalinn og á Flateyna.

Svartarkot  0.5 - 1 Hz

Mynd 1: Óróaplott á Svartárkoti í tíðniglugganum 0.5-1 Hz fyrir alla ása mælisins (V=upp/niður,N=norður/suður,E=austur/vestur).

Svartarkot,  1 - 2 Hz

Mynd 2: Óróaplott á Svartárkoti í tíðniglugganum 1-2 Hz fyrir alla ása mælisins (V=u pp/niður,N=norður/suður,E=austur/vestur). Flóðatoppar í Skjálfandafljóti koma best fram í austur/vestur hreyfingunni.

Svartarkot, 2 - 4 Hz

Mynd 3: Óróaplott á Svartárkoti í tíðniglugganum 2-4 Hz fyrir alla ása mælisins (V=u pp/niður,N=norður/suður,E=austur/vestur). Flóðatoppar í Skjálfandafljóti sjást hér einnig greinilega en útslag á öllum ásum er svipað þó mest upp/niður.

Svartarkot,  2002-01-06

Mynd 4: Óróaplott á Svartárkoti í tíðniglugganum 1-2 Hz fyrir alla ása mælisins (V=u pp/niður,N=norður/suður,E=austur/vestur). Órói vegna fyrra flóðsins byrjar um kl. 23:43 þann 6. janúar 2002.

Svartarkot,  2002-01-10

Mynd 5: Óróaplott á Svartárkoti í tíðniglugganum 0.5-1 Hz fyrir alla ása mælisins (V=upp/niður,N=norður/suður,E=austur/vestur). Órói vegna seinna flóðsins byrjar um kl. 03:21 þann 10. janúar 2002.

Flatey, Hedinshofdi og Granasta

Mynd 6: Myndin sýnir óróaplott á SIL stöðvunum, Flatey (fla), Granastöðum (gra) í Köldukinn og Héðinshöfða (hed) á Tjörnesi. Hægri ásinn sýnir loftþrýsting miðað við sjávarmál og loftþrýstingur er sýndur fyrir sjálfvirku veðurstöðvarnar Font, Grímsey, Húsavík og Upptyppinga (OS). Óróatoppurinn á Flatey (fla) orsakast af hvassri SV átt sem gengur út Flateyjardalinn og á eyna Flatey.