Samfelldar GPS mælingar á Íslandi

Nú eru samfelldar GPS mælingar hafnar á Íslandi. Skammstöfunin GPS stendur fyrir Global Positioning System sem er kerfi gervitungla á braut um jörðu, sem rekið er af bandaríska hernum.

Á þessari síðu verður hægt að fylgjast með helstu niðurstöðum mælinga og einnig hægt að nálgast gögn frá GPS stöðvum í netinu.

Þessar mælingar eru samvinnuverkefni milli Veðurstofu Íslands , Norrænu Eldfjallastöðvarinnar og Raunvísindastofnunar Háskólans.

Hengilssvæðið

Vegna jarðskjálftahrina á Hengilssvæðinu í júní og Ölfusi í nóvember 1998 þótti ástæða til að fylgjast grannt með jarðskorpuhreyfingum á þessu svæði. Fjármagn til tækjakaupa fékkst frá Hitaveitu Reykjavíkur, og Íslenska Ríkinu.

Keypt voru fjögur Trimble 4700 tæki, sem skrá merki á bæði L1 og L2 tíðnisviði. Loftnetin sem taka við merkjunum eru Trimble Choke Ring loftnet, sem eiga að tryggja sem mesta mælinákvæmni. Merkið er sent úr viðtækinu í PC tölvu sem safnar gögnum í sólarhrings langar skrár. Náð er í gögnin af stöðvunum í gegnum síma einu sinni á sólarhring. GPS stöðvarnar eru í Hlíðardalsskóla (HLID), Hveragerði (HVER), Vogsósum (VOGS) og Ölkelduhálsi (OLKE).

Mýrdals- og Eyjafjallajökull

Settar hafa verið upp þrjár GPS stöðvar til samfelldra mælinga í nágrenni Mýrdals- og Eyjafjallajökuls, vegnar aukinna jarðhræringar á svæðinu sem hófust í júlí 1999.

Notuð eru Trimble 4000SSI tæki og Trimble Choke Ring loftnet við mælingarnar. Fjármagn til tækjakaupa fékkst frá Rannsóknarráði Íslands. Búið er að setja upp GPS stöðvar á Sólheimaheiði (SOHO) , Lágu-Hvolum (HVOL) og á Þorvaldseyri (THEY).

Vestmannaeyjar

Stöðin í Vestmannaeyjum (VMEY) hóf mælingar 27. júlí, 2000. Mælingarnar eru gerðar með Trimble 4000SSI tæki og Trimble Choke Ring loftneti.

Skrokkalda

Stöðin á Skrokköldu (SKRO) á Sprengisandi hóf mælingar 21. september, 2000. Stöðin er rekin í samvinnu við Háskólann í Savoie, Frakklandi. Mælingar eru gerðar með Ashtech Z-12 CGRS tæki og Ashtech loftneti.

Suðurlandsundirlendi

Í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandsundirlendinu sumarið 2000, hefur verið sett upp stöð til samfelldra GPS mælinga við Kiðjaberg (KIDJ) Mælingarnar eru gerðar með Trimble 4700 tæki og Trimble Choke Ring loftneti.

Norðurland

Stöðin á Raufarhöfn (RHOF) hóf mælingar 20. júlí 2001. Stöðin er rekin í samvinnu við Háskólann í Savoie, Frakklandi. Mælingar eru gerðar með Ashtech/Martec tækjabúnaði.

Til baka á heimasíðu GPS mælinga


Benedikt Gunnar Ofeigsson (gps@vedur.is).