Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Streinútlausn í Eyjafjallajökulsskjálftum

Á fundi vísindamannaráðs Almannavarna 2. desember s.l. sýndi Veðurstofan meðfylgjandi línurit. Það sýnir uppsafnaða streinútlausn (Strain release=10(M+5)) í jarðskjálftum í Eyjafjallajökli frá 1991. Þangað til á þessu ári var mesta streinútlausn í jarðskjálftum á þessu svæði árið 1994.

Strainútlausn er þó nokkuð meiri núna í ár, einkanlega vegna eins jarðskjálfta í mars s.l. Einnig er núna tilhneiging til grynnri skjálftaupptaka. Það er líka athyglisvert að skjálftahrinan sem réð mestu um streinútlausnina 1994 kom í kjölfar langvarandi hægfara streinútlausnar (margir litlir skjálftar á löngum tíma). Nú sjáum við streinútlausn í skjálftum í kjölfar skjálftans í mars og sú útlausn heldur áfram og hefur hert á sér undanfarið. Slík hægfara streinútlausn á þessu svæði er sennilega tengd vökvarennsli og vökvaþrýstingi. Þegar á allt þetta er litið metum við það svo að meiri líkur séu á eldgosi í Eyjafjallajökli nú en var 1994, þótt hins vegar sé útilokað að fullyrða um að gos sé væntanlegt á næstunni.

Ragnar Stefánsson og Gunnar B. Guðmundsson


kristinj@vedur.is