next up previous contents
Next: Svæðaskipting Up: Yfirlit um jarðskjálfta á Previous: Contents   Contents

Inngangur

Hér á eftir eru tekin saman drög að yfirliti um niðurstöður jarðskjálftamælinga í SIL-kerfinu frá miðju ári 1991 og til ársloka 2000. Drög þessi eru vinnuplagg og þeim er fyrst og fremst ætlað að vera grundvöllur að ýtarlegri umfjöllun um jarðskjálfta á Íslandi bæði hvað varðar landið í heild sem og einstök svæði. Kort og gröf sem hér eru birt hafa fyrst og fremst gildi hvað varðar smærri skjálfta, minni en 4 á Richterkvarða. Slíkir skjálftar geta gefið miklar upplýsingar um ferli, eða hvað er að gerast niðri í jarðskorpunni frá degi til dags. Um stærri skjálfta þarf að fjalla sérstaklega, en þeir hafa mikið gildi þegar spennulosun í jarðskorpunni er metin.

Landinu er skipt niður í svæði og á bls. 5 er svæðaskiptingin sýnd. Helstu einkenni skjálftavirkninnar á hverju svæði eru dregin fram á nokkrum myndum. Leitast er við að hafa sambærilegar upplýsingar á myndunum þannig að auðvelt sé að bera svæðin saman. Hér á eftir verður gefið yfirlit um það sem er sameiginlegt með myndunum. Ef um frávik er að ræða er þess getið við hverja mynd.

Alls staðar þar sem rætt er um jarðskjálftastærðir $M$, er átt við staðbundna Richterstærð $M_{L}$, sem er í samræmi við þá stærð sem notuð var hér á landi fyrir daga SIL-kerfisins.

Skjálftakort. Á þeim eru skjálftar staðsettir með fleiri en 4 bylgjufösum á a.m.k 4 jarðskjálftamælistöðvum. Einungis eru teiknaðir skjálftar þar sem lárétt staðalfrávik í staðsetningu er innan við 3 km og staðalfrávik í dýpi er innan við 10 km. Hringirnir sem tákna skjálftana eru misstórir í samræmi við stærð skjálftanna.

Uppsafnaður fjöldi skjálfta miðaður við stærð, b-gildis kúrfa. Teiknaðar eru tvær myndir sem sýna uppsafnaðan fjölda jarðskjálfta sem fall af stærð. Á fyrri myndinni er tekið fyrir tímabilið frá júlí 1991, þ.e. frá upphafi reksturs SIL kerfisins. Á þeirri seinni er miðað við þann tíma frá því að næmni kerfisins komst í svipað horf og er nú á viðkomandi svæði. Af myndunum má ráða næmni kerfisins á hverju svæði og tímabili af því við hvaða stærðir $\log_{10}(upps. fj.)$ fellur að beinni línu. Línan lýtur formúlunni $\log_{10} N = a -bM$, þar sem $N$ er fjöldi skjálfta $\ge M$ og hallatalan er svokallað b-gildi. Gera má ráð fyrir að kerfið nemi alla skjálfta sem eru stærri en minnsti skjálftinn sem fellur að þessari línu.

Hlaupandi b-gildi. Sé gengið út frá því að stærðir jarðskjálfta lúti dreifingunni $\log_{10} N = a -bM$, þar sem $N$ er fjöldi skjálfta $\ge M$, má sýna fram á að

\begin{displaymath}b = \frac{0,4343}{\overline{M} - M_{min}} \end{displaymath}

þar sem $M_{min}$ er lágmarksstærð þeirra skjálfta sem notaðir eru en $\overline{M}$ er meðalstærð þeirra. Staðalfrávik miðað við 95% öryggismörk er $\pm 1,96b/\sqrt{n}$ þar sem $n$ er fjöldi skjálfta sem notaður er. Á myndunum er sýnt hlaupandi b-gildi þar sem notaðir eru 25 skjálftar. Á fyrri myndinni er $M_{min}$ sett 0,5, en á þeirri seinni er það mismunandi eftir næmni kerfisins á hverju svæði, sbr. b-gildis kúrfuna hér að ofan. Það er eðlilegra að miða við raunverulegt lágmark þegar $M_{min}$ er ákvarðað. Þar sem notaðir eru 25 skjálftar í þessari samantekt er staðalfrávikið 0,39.

Uppsafnaður fjöldi skjálfta miðaður við tíma. Teiknaðar eru tvær myndir miðaðar við mismunandi lágmarksstærðir. Á þeirri fyrri er lágmarksstærðin 0,5 en á þeirri seinni er hún mismunandi eftir næmni kerfisins.

Uppsöfnuð streinútlausn í skjálftum. Til að reikna streinútlausn í hverjum skjálfta er notuð jafnan $strein = 10^{5+M}$. Í þessu tilviki skiptir lágmarksstærð litlu þar sem minni skjálftar vega mjög lítið.

Dreifing skjálfta eftir dýpi. Myndin sýnir hlutfallslega skiptingu jarðskjálfta á svæðinu eftir dýpi.

Mat á nákvæmni skjálftamælinga á svæðinu. Á þremur efri myndunum er sýnt mat á nákvæmni í lengd, breidd og dýpi. Á sumum svæðum verður oft að festa dýpið til að hægt sé að staðsetja skjálfta. Í þeim tilvikum er staðalfrávikið á dýpinu sett 0,0 og segir það því ekkert um raunverulega skekkju. Á neðstu myndinni er sýndur fjöldi skjálfta sem fall af fjölda þeirra fasa sem notaðir hafa verið til að staðsetja þá.


next up previous contents
Next: Svæðaskipting Up: Yfirlit um jarðskjálfta á Previous: Contents   Contents
Gunnar Gudmundsson 2001-02-21