Til að leggja mat á færni kerfisins við að skilja á milli raunverulegra skjálfta og rusls þarf að yfirfæra gæðastuðul atburða í skjálfvirku úrvinnslunni á skjálfta sem hlotið hafa náð fyrir augum skjálftunga. Einfaldar aðferðir til þess arna eru t.d. að byggja samsvörunina á tilvísun atburðarins, þannig að skjálfti í events.lib er talinn samsvara þeim atburði í events.aut sem hefur sama færslulykil1 Rognvaldsson:1997, eða að velja þann atburð sem næstur er skjálftanum í tíma og rúmi Bodvarsson/etal:1996,Rognvaldsson:1996. Báðar aðferðirnar hafa nokkuð til síns ágætis.
Þegar farið er yfir atburðina í events.aut merkir vanur skjálftungur oftast við fyrsta augnakast hvort um raunverulegan jarðskjálfta er að ræða eður ei. Hann bætir við þeim fösum sem sjálfvirkninni hafði yfirsést og hendir þeim sem ekki eiga heima í blöndunni og staðsetur skjálftann. Þannig fer skjálftinn inn í events.lib með sömu tilvísun og sú útgáfa hans í events.aut sem lægst hafði gæðin en hágæða afbrigði skjálftans eiga sér engan alnafna í events.lib. Til að meta hvaða gæði tiltekinn skjálfti í events.lib hefur fengið í sjálfvirku úrvinnslunni nægir því oft ekki að taka gæði sama skjálfta2 í events.aut. Ekki dugir heldur að fara eingöngu eftir staðsetningu og upphafstíma þegar meta á hvort tvær færslur í events.aut eru raunverulega tveir atburðir eða tvö afbrigði sama skjálftans þar sem oft munar miklu í staðsetningu, enda þótt uppistaðan í báðum atburðunum séu sömu fasarnir.
Til að finna sem áreiðanlegasta samsvörun raunverulegra skjálfta og færslna í events.aut voru athugaðir allir atburðir sem kerfið staðsetti með upphafstíma innan 5 sekúndna frá upphafstíma skjálftans. Ef einhverjir þeirra innihéldu tvo eða fleiri fasa sem einnig voru notaðir í gagnvirku staðsetningu skjálftans var einkunn þess þeirra sem best samsvaraði skjálftanum yfirfærð á skjálftann. Hver færsla í events.aut var aðeins notuð einu sinni. Besta samsvörun við skjálftann var talinn hafa sá atburðanna innan tímagluggans sem átti flesta sameiginlega fasa með skjálftanum. Fasi var talinn sameiginlegur ef tímamunur hans í *.evb og *.eve skránum var innan 0.2 sekúndna. Ef fleiri en ein færsla í events.aut féllu jafnvel að skjálftanum samkvæmt þessari skilgreiningu var valin sú sem hærri hafði gæðin. Ef enginn atburður uppfyllti þessi skilyrði taldist sjálfvirka úrvinnslan hafa misst af skjálftanum og hann var skilgreindur sem heimatilbúinn eða handefldur og gefin gæðin 0.0 til aðgreiningar frá þeim skjálftum sem kerfinu tókst að staðsetja án aðstoðar. Forritið libq framkvæmir samsvörun þá sem að ofan er lýst. Forritið getur einnig fundið samsvörun byggða á staðsetningu og upphafstíma atburða, enda þótt sú aðferð væri ekki notuð í þessari úttekt. Nánari upplýsingar um notkun forritsins fást með skipuninni libq -h.