| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 960617 - 960623, vika 25

Til að prenta kortið má nota
postscript
Vikan var með rólegra móti, skráðir og staðsettir skjálftar
voru 269.
Suðurland
Auk nokkurra skjálfta á Hengilssvæðinu og í Ölfusi, hélt
jörð áfram að pipra nærri Saurbæ í Holtum. Virkni hófst
þarna í byrjun maí með einum til tveimur skjálftum á dag.
Dagana 26., 27. og 29. maí urðu þarna litlar skjálftahrinur með á
þriðja tug skjálfta hver. Þann 21. júni urðu í Holtunum
um 30 skjálftar, þeir stærstu af stærðinni 1.6.
Afstæðar staðsetningar nokkurra skjálfta frá fyrri hluta
maí mánaðar benda til að hreyfingin hafi þá verið á
nær lóðréttri sprungu með stefnu um 68A.
Brotlausnir stærstu skjálftanna benda til blöndu af samgengis- og
vinstri handar sniðgengishreyfingu á flötum með svipað strik
og fæst út frá innbyrðis staðsetningum skjálftanna. Halli
brotflatanna samkvæmt brotlausnum er þó ívið minni
(60-70 gráður) en halli sprungunnar, metinn með upptakagreiningu
skjálftanna. Athugun á skjálftahrinunum eftir 20. maí sýnir
að þær urðu allar á sprungu eða sprungum með strik um
20A. Hreyfing í þessum skjálftum er yfirleitt hægri
handar sniðgengi, líkt og í stærri skjálftum í
skjálftabeltinu.
Undir Vatnajökli voru staðsettir þrír skjálftar, sá stærsti
um 3.0 að stærð. Í Kötlu urðu tveir skjálftar, 1.9 og 1.7
að stærð. Atburður nærri Þyrli í Hvalfirði er að
öllum líkindum sprenging.
Norðurland
Nokkrir skjálftar urðu í Öxarfirði og á Grímseyjarbeltinu.
Einnig varð lítil hrina suðaustur af Flatey, á svipuðum slóðum
og M=3.4 skjálftinn 26. janúar síðastliðinn.
Sigurður Th. Rögnvaldsson