Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 960930 - 961006, vika 40

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]


Til að prenta kortið má nota postscript

Það sem hæst ber í liðinni viku er að sjálfsögðu gosið í Vatnajökli og skjálftahrinan því samfara. Alls voru staðsettir 290 skjálftar, þar af um 200 í nágrenni Bárðarbungu. Ný skjálftamælistöð var tekin í notkun á Skrokköldu (64.55700, -18.37900, hæð 930.0 mys, skr) þann 1. október.

Suðurland

Nokkrir skjálftar á Hengilssvæðinu og í Holtunum. Tveir skjálftar í Vestanverðum Mýrdalsjökli.

Norðurland

Smá hrinur austur af Grímsey og nærri Flatey, auk stakra skjálfta í Tjörnesbrotabeltinu.

Bárðarbunga

Sunnudaginn 29. september klukkan 10:48 varð skjálfti af stærðinni 5 norðvestan í Bárðarbungu. Næstu klukkustundirnar urðu nokkrir tugir eftirskjálfta á svipuðum slóðum. Síðan dró heldur úr virkninni en skjálftar héldu þó áfram allan næsta dag og voru þá dreifðari en fyrst eftir stóra skjálftann. Virknin færðist einkum til suðurs, allt suður að 64.5 gráðum norður, en nokkrir skjálftar urðu einnig norður af meginskjálftanum.

Síðdegis þann 30. september var haldinn fundur í Vísindaráði Almannavarna og í framhaldi af honum gefin út viðvörun um hugsanlegt eldgos í nágrenni Bárðarbungu. Milli klukkan 21 og 22 hættu skjálftar syðst á svæðinu en virknin hélt áfram í norður hlutanum (mynd 3). Um svipað leiti kom fram gosórói á mælum Raunvísindastofnunnar á Grímsfjalli og í Vonarskarði. Gosið er því talið hefjast um klukkan 22--23 að kveldi 30. september. Eftir miðjan dag 2. október fækkar verulega skjálftum á svæðinu, enda á þá líklega kvika greiða leið upp á yfirborðið.

Dagana 5. og 6. október urðu nokkrir skjálftar í og norður af Tungnafellsjökli. Skjálftar eru fátíðir á þessum slóðum og tengjast skjálftarnir nú vafalaust umbrotunum í Bárðarbungu.

Þær staðsetningar skjálfta sem sýndar eru á meðfylgjandi kortum eru eingöngu byggðar á gögnum frá mælum Veðurstofunnar. Mælirinn á Skrokköldu er í um 50 km fjarlægð frá gosstöðvunum en aðrar stöðvar eru í yfir 100 km fjarlæð. Staðsetningar skjálftanna eru því nokkuð óvissar en +-3-5 km óvissa í lárétta stefnu er algeng. Um dýpi skjálftanna er nánast ekkert hægt ad segja með vissu út frá þessum gögnum. Með því að bæta inn gögnum frá Raunvísindastofnun tekst þó vonandi að fá öruggari mynd af skjálftadreifingunni og verður það gert á næstu dögum.

Nánari upplýsingar um gosið má finna á heimasíðu Norrænu Eldfjallastöðvarinnar Ratsjármyndir af eldstöðvunum eru á vefsíðu Tromsö Satellite Station Dagskort af staðsetning jarðskjálfta í nágrenni gosstöðvanna eru á vefsíðum Veðurstofunnar

Sigurður Th. Rögnvaldsson