| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 961202 - 961208, vika 49

Til að prenta kortið má nota
postscript
Alls voru staðsettir 309 atburðir í vikunni, þar af 3 sprengingar í
grjótnámi Reykjavíkurborgar við Hafravatn.
Suðurland
Nokkrar hrinur smáskjálfta urðu á Hengilssvæðinu í vikunni.
Þann 7. desember skráði kerfið hrinu með upptök í Reykjadal um
2 km NNV af Hveragerði.
Klukkan 21:07 þann 8.12. varð skjálfti af stærðinni 2.3 um 2 km NNV af Selfossi.
Skjálftinn fannst á Selfossi. Honum fylgdu nokkrir smærri kippir.
Nokkrir skjálftar urðu á Torfajökulssvæðinu og í Mýrdalsjökli.
Norðurland
Á Grímseyjarmisgenginu urðu nokkrir skjálftar sem dreifast eftir beltinu
allt frá Grímsey inn á Öxarfjörð. Dagana 5. og 6. desember urðu á þriðja
tug jarðskjálfta undir Víknafjöllum (66,06N, 17,85V) á Eystriskaga.
Skjálftarnir eru á um 8 km dýpi. Sá stærsti er 3,3 á Rictherskvarða
en hinir á bilinu 0,5 til 1,5. Innbyrðis staðsetningar skjálftanna benda til
að þeir hafi orðið á misgengi með stefnu milli hánorðurs og norðnorðvesturs.
Besta plan gegnum þyrpinguna hefur strik 149 gráður og er meðalfjarlægð
skjálftanna frá því um 41 m. Staðsetning skjálftanna er þó þannig að
meðalfjarlægð þeirra frá lóðréttum fleti með strik milli N og NNV
er ávallt innan við 50 m. Strikstefnan er því ekki mjög vel ákvörðuð
en þó greinilega norðlæg.
Brotflöturinn er nær lóðréttur. Stefna misgengisins, samkvæmt
innbyrðis staðsetningunum, er í góðu samræmi við brotlausnir skjálftanna,
sem benda til sniðgengishreyfinga á fleti með N-S eða A-V stefnu. Ef
brotið er á fleti með N-S stefnu er færslan í upptökunum vinstri
hliðrun, þ.e. austan við flötinn hrekkur bergið til norðurs.
Á undanförnum mánuðum og árum haf orðið nokkrar skjálftahrinur austur af
Flatey. Þær eru flestar á flötum með norðlæga stefnu og virðast
misgengin fylgja vesturbrún Skjálfanda. Má vel hugsa sér að skjálftarnir í
Víknafjöllum nú séu á sama misgengi eða brotabelti, sem þá teygist eitthvað
suður á skagann. Ef um er að ræða samfellt misgengi hlýtur það að skera
Flateyjarmisgengið sem liggur með ströndinni og stefnir VNV-ASA.
Það er kannski ekki mjög sennilegt en þó má benda á að í nágrenni
Húsavíkur hefur bergið sunnan við Flateyjarmisgengið sigið en þegar komið er
vestur undir Flatey er það bergið norðan við misgengið sem sigið hefur.
Endurkastsmælingar (Kjartan Thors, 1982) benda einnig til að
FLateyjarmisgengið sé ekki samfellt yfir Skjálfandann allan.
Hálendið
Nokkrir skjálftar mældust í nágrenni gosstöðvanna í Vatnajökli og
einn í vestanverðum Langjökli.
Sigurður Th. Rögnvaldsson