| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 970324 - 970330, vika 13

Til að prenta kortið má nota
postscript
Skjálftavirkni var talsverð í vikunni. Mest bar á skjálftum í Henglinum
en einnig talsvert í Vatnajökli. Alls voru staðsettir 368 skjálftar í vikunni.
Suðurland
Skjálftahrina hófst í Henglinum þriðjudaginn 25. mars rétt fyrir klukkan 18.
Skjálftarnir voru flestir litlir, sá stærsti um 2.7 stig. Til að byrja með
voru flestir þeirra í grennd við Hrómundartind og Ölkelduháls en svo bættist
við skjálftavirkni sunnar, við Skálafell, er líða tók á vikuna.
Einn skjálfti varð út á Selvogsbanka. Hann sást á mörgum mælistöðvum á
Suðurlandi og því nokkuð rétt staðsettur. Ekki er algengt að sjá skjálfta
á þessum slóðum.
Nokkrir skjálftar mældust líka rétt austan Þjórsár, í grennd við Ásmúla.
Einn skjálfti var staðsettur í grennd við Laufafell, suðaustan Heklu.
Norðurland
Fyrri hluta vikunnar varð talsvert af skjálftum í mynni Skagafjarðar og
við Grímsey. Einn skjálfti af stærðinn 2,7 stig varð í Mývatnssveit.
Hálendið
Mýrdalsjökull hristist tvisvar, sem mælt var, en líflegra var í Vatnajökli.
Þar mælast að jafnaði nokkrir skjálftar á dag og virðist virkni vera vaxandi
ef eitthvað er.
Pálmi Erlendsson