Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 970804 - 970810, vika 32

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

Til að prenta kortið má nota postscript

Í vikunni voru staðsettir 695 atburðir, flestir með upptök norður af Eyjafirði.

Suðurland

Á Hengillsvæðinu var venju fremur rólegt en auk stakra skjálfta urðu þar aðeins þrjár litlar skjálftahviður í liðinni viku. Þær voru í Fremstadal, nærri Molddalahnjúkum vestur af Reykjadal og norður af Klóarfjalli.

Mánudaginn 4.8. mældust nokkrir skjálftar nærri Torfajökli, allir milli 1 og 2 að stærð.

Að morgni laugardagsins 9.8. kl. 09:35 varð skjálfti ríflega 2 að stærð um 2 km norður af Stóra-Kóngsfelli. Hann virðist ekki hafa fundist. Ekki mældust neinir smærri skjálftar í nágrenninu, hvorki fyrir né eftir skjálftann. Brotlausn skjálftans bendir til blöndu af snið- og siggengi á plani með strik 29 gráður og halla 76 gráður til ASA.

Að auki urðu nokkrir skjálftar í vestanverðum Mýrdalsjökli og stöku skjálftar í Suðurlandsskjálftabeltinu og á Reykjanesskaga.

Norðurland

Framan af vikunni var lítið um jarðskjálfta á Norðurlandi en um 05:23 að morgni miðvikudags 6.8. varð skjálfti af stærðinni 3.8 út af mynni Eyjafjarðar, á sömu slóðum og skjálftarnir 22. júlí (í viku 30) og dagana þar á eftir. Skjálftinn fannst í Skagafirði, á Siglufirði, Ólafsfirði og í Dalvík. Honum fylgdu hundruð eftirskjálfta, sá stærsti um 3.7 að stærð. Sá fannst a.m.k. á Ólafsfirði. Innbyrðis staðsetningar skjálftanna benda til að þeir hafi orðið á nær lóðréttum sprungum með stefnu um það bil VNV-ASA, það er samsíða Flateyjar-Húsavíkur misgenginu.

Þegar skolfið hafði norður af Eyjafirði í einn til tvo sólarhringa tók að hrikta í skorpunni víðar á Norðurlandi. Þá urðu stakir smáskjálftar m.a. norður af Skagafirði, í Flókadal og suður af Hólsfjalli. Einnig skalf lítillega í Öxarfirði og austur af Grímsey.

Sigurður Th. Rögnvaldsson