| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 971006 - 971012, vika 41

Til að prenta kortið má nota
postscript
Í vikunni voru staðsettir 395 skjálftar og var virknin heldur
vaxandi er leið á vikuna.
Suðurland
Að venju voru flestir þeirra skjálfta sem staðsettir voru
í vikunni á austanverðu
Hengilsvæðinu. Nokkrir skjálftar
mældust undir Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga og
við Hlíðarvatn í Selvogi.
Virkni hélt áfram í vestanverðum Mýrdalsjökli. Flestir
skjálftanna virðast eiga upptök nærri yfirborði undir
Fimmvörðuhálsi.
Í flestum þeirra skjálfta sem upptök eiga nærri Mýrdalsjökli
er hreyfingin hægari og stendur mun lengur en í venjulegum
skjálftum. Þetta veldur því að það er erfiðara að
staðsetja skjálftana og það er vandkvæðum bundið að
meta stærð þeirra. Því er mun meiri óvissa í staðsetningu
flestra skjálfta á Mýrdalsjöklussvæðinu og hætt við að
stærð þeirra sé talsvert vanmetin.
Norðurland
Skjálftavirkni hélt áfram við mynni Eyjafjarðar, stærsti
skjálftinn var klukkan 23:50 á sunnudagskvölið og mældist
stærðin 3.5. Þessi skjálfti fannst á Ólafsfirði.
Hálendið
Í vikunni voru engir skjálftar staðsettir á miðhálendinu.
Einar Kjartansson