| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20020805 - 20020811, vika 32

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Vikan var óvenju fjörug og mældust yfir 500 atburðir. Mest bar á hrinu jarðskjálfta
í Fagradalsfjalli 9. og 10. ágúst. Allnokkur virkni mældist einnig undir Mýrdalsjökli
og undir Skeiðarárjökli.
Suðurland
Þann 9. ágúst hófst skjálftahrina í Fagradalsfjalli á Reykjanesi.
Á milli 16:30 og 17 þann dag mældust 16 skjálftar í Fagradalsfjalli, sá stærsti 1.2 að
stærð. Upp úr klukkan 22 sama dag tók hrinan sig upp af meiri krafti en áður
og klukkan 22:18 varð jarðskjálfti 2.8 að stærð. Virknin dó út er leið á aðfaranótt
10. ágúst. Hér gefur að líta mynd af
stærð skjálftanna sem fall af tíma í hrinunni. Alls mældust 125 skjálftar í hrinunni.
Á sunnudegi (11. ágúst) mældust nokkrir skjálftar vestan við Fagradalsfjall.
Hrinur sem þessar virðast verða á nokkurra ára fresti. Í nóvember 2000 varð t.d. hrina
með yfir 400 skjálftum.
Jarðskjálfti að stærðinni 1.7 mældist undir Kleifarvatni aðfaranótt miðvikudags. Nokkrir
atburðir voru staðsettir í grennd við námur við Sveifluháls á Reykjanesi (6 km VSV af
Helgafelli) og kunna að vera sprengingar.
Áframhaldandi virkni var á Holta- og Hestfjallssprungunum. Stærsti skjálftinn þar mældist 1.6
á Richter við norðanvert Hestvatn.
Nokkrir smáskjálftar voru á Hengilssvæðinu. Sá stærsti mældist 1.9 á Richter með
upptök um 7 km SV af Skálafelli á þriðjudeginum.
Norðurland
Skjálftadreif var á misgengisbeltunum úti fyrir Norðurlandi. Þann 9. ágúst kl. 11:36:03
mældist jarðskjálfti að stærð 2.8 á Richter um 36 km VNV af Kópaskeri. 11 sekúndum áður
mældist jarðskjálfti að stærð 2.2 á sama stað.
Hálendið
Katla: Undir Mýrdalsjökli mældust 19 skjálftar stærri en 1.5 á Richter, sá stærsti
2.6 á Richter þann 8. ágúst kl. 11:11. Vart var við ríflega
200 atburði undir Mýrdalsjökli í vikunni, en margir þeirra eru illa staðsettir vegna
hversu litlir þeir eru. Meginhluti virkninnar var undir vestari hluta jökulsins,
en nokkuð var um ísskjálfta í Kötlujökli 5. og 6. ágúst. Þeir sjást
sem tittir á óróagrafinu fyrir Láguhvola.
Glöggir sjá á sérkorti af Mýrdalsjökli að nokkrir jarðskjálftar virðast mynda
línu í stefnu NNV undir vestanverðum jöklinum. Þessi lína telst ekki raunveruleg og
stafar af jarðskjálftum sem sjást eingöngu á jarðskjálftastöðinni að Eystri Skógum.
Torfajökull: Hrina um 15 til 20 skjálfta í vestanverðri Torfajökulsöskjunni varð þann
9. ágúst á milli 13:20 og 13:40. Hægt var að staðsetja (með nokkurri óvissu) 10
atburði í hrinunni. Stærsti skjálftinn mældist 0.8 að stærð.
Vatnajökull: 9 jarðskjálftar mældust á dreif undir vesturhluta Vatnajökuls. Skjálftarnir
voru á stærðarbilinu 0.6 til 1.5.
Talsverður fjöldi af atburðum sem tengjast hlaupi úr Grænalóni mældust undir
Skeiðarárjökli. Óróinn fór að aukast aðfaranótt 11. ágúst á
Kálfafelli og á Fagurhólsmýri.
35 atburðir (að stærð 0.0 til 1.4) voru staðsettir undir Skeiðarárjökli, en atburðurnir
voru mun fleiri eins og sést á óróanum
frá nokkrum stöðvum í grennd við Vatnajökul.
Halldór Geirsson