Um 170 skjálftar mældust þessa vikuna, allir smáir. Nokkrir skjálftar í
Mýrdalsjökli náðu stærð yfir 2 á Richter, sá stærsti mældist 2,6.
Einna athyglisverðust þessa vikuna er hrina smáskjálfta í Fljótunum í
Skagafirði milli kl. 18 og 20 á miðvikudagskvöld. Á fimmtudagsmorgun
varð svipuð smáskjálftahrina við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga,
stærsti skjálftinn í þeirri hrinu mældist 2,1 á Richter.
Suðurland
Á Suðurlandsundirlendinu er virknin nánast eingöngu bundin við eftirskjálfta
á skjálftasprungunum frá árinu 2000. Einn skjálfti mældist við Skarðsfjall.
Dreifð virkni í Ölfusi nær allt vestur fyrir Geitafell og eins er dreifð
smáskjálftavirkni austan við Hengil. Á Reykjanesskaga var sem fyrr segir
nokkur virkni við Fagradalsfjall og einn skjálfti út af Reykjanestá. Eins
mældust nokkrar sprengingar við Helguvík, en þær koma ekki fram á kortinu.
Norðurland
Alls mældust 18 skjálftar í Fljótunum frá því um hádegisbil á miðvikudag og
fram undir kvöld á fimmtudag. Langlestir þeirra, þ.e. 10 skjálftar, urðu á
bilinu frá kl. 18:34 til kl. 19:08 á miðvikudagskvöld. Þessir skjálftar voru
allir smáir, sá stærsti mældist kl. 23:31 af stærðinni 1,3. Á sunnudagsmorgun
mældist svo einn skjálfti af stærð 1,1 suður af Héðinsfirði.
Tveir smáskjálftar mældust norður af Kröflu. Í því sambandi má geta þess að
nýr jarðskjálftamælir við Krókóttuvötn, norður af Kröflu, var tengdur kerfinu
nýverið og eykur það skjálftanæmnina á þessu svæði.
Á Tjörnesbrotabeltinu var virknin nokkuð dreifð.
Hálendið
Tveir skjálftar mældust í byrjun vikunnar í Dyngjujökli, rétt sunnan við
Kistufell. Þetta er nokkuð norðar en smáhrinan í Bárðarbungu vikuna áður,
en þó varð einnig skjálfti á hálendinu rétt norðan við jökulinn þá vikuna.
Einn skjálfti mældist á Torfajökulssvæðinu vestan við Hrafntinnusker.
Á þriðjudagskvöld mældist skjálfti undir Skjaldbreið, en á sunnudagsmorgun
mældust tveir skjálftar norður af Hveravöllum.
Mýrdalsjökull
Alls mældust um 50 skjálftar undir Mýrdalsjökli. Þar af var ríflega helmingur
í vestanverðum jöklinum, en um 20 skjálftar staðsetjast í eða við Kötluöskjuna.
Allir skjálftarnir sem eru stærri en 2 á Richter, alls 7 að tölu, eru þó í
vesturjöklinum.