Veðurstofa Íslands
Eðlisfræðisvið

Jarðskjálftar 20040216 - 20040222, vika 08

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Eðlisfræðisvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Alls mældust 175 skjálftar í vikunni, þar af 60 undir Mýrdalsjökli og 27 í Skeiðarárjökli. Stærsti skjálftinn varð norður á Kolbeinseyjarhrygg og mældist hann 2,9. Stærsti skjálftinn á landi mældist 2,6 og var hann staðsettur í Ölfusi fyrir ofan Hjallahverfið (rétt norðan við Þrengslaveg).

Suðurland

Á Reykjanesskaga var rólegt. Þar mældust 2 skjálftar í Fagradalsfjalli og einn við Krísuvík. Auk þess mældist einn skjálfti nálægt Eldey. Nokkrir skjálftar mældust í vikunni ofan við Hjallahverfið í Ölfusi. Þar mældist stærsti skjálftinn 2,6 á miðvikudagsmorgun þ. 18.2. Á Suðurlandsundirlendi var virknin mest á Hestfjalls- og Holtasprungunum.

Norðurland

Í Tjörnesbrotabeltinu mældust 25 skjálftar, allir minni en 2 á Richter. 3 skjálftar mældust inn af Ólafsfirði í byrjun vikunnar, sá stærsti þeirra mældist 1,3.

Hálendið

Undir Mýrdalsjökli mældust 60 skjálftar þessa vikuna, þeir stærstu voru af stærð 2,4. Um 15 skjálftar til viðbótar sáust í gögnum án þess að hægt væri að staðsetja þá, en nokkrir þeirra voru greinilega í austanverðum jöklinum.

Virkni heldur áfram við Grímsvötn og mældust þar 5 skjálftar á stærðarbilinu 1,3 - 1,8. Þá voru 27 ísskjálftar staðsettir í Skeiðarárjökli og tengjast þeir vatnavöxtum vegna mikillar úrkomu. Matthew Roberts tók saman yfirlit yfir úrkomu í Skaftafelli, rennsli í Skeiðará og fjölda ísskjálfta á þessu úrkomutímabili og má sjá niðurstöðurnar [hér].

Á sunnudagskvöldið mældust 2 skjálftar af stærð 1,5 norð-vestur af Dyngjufjöllum en þar hafa 18 skjálftar mælst á þessu ári. Í Langjökli mældist 1 skjálfti af stærð 1.3.

Steinunn S. Jakobsdóttir