Síðustu tvær vikurnar (viku 25 og 26), 14.-27.júní, jókst virkni úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Þegar þetta er ritað mælast þar enn skjálftar en mikið hefur dregið úr virkninni. Svæðið sem um ræðir má sjá á mynd 3. Fyrri vikuna mældust þarna um 300 skjálftar og álíka margir í seinni vikunni, í allt 606 skjálftar. Mynd 1 sýnir stærð skjálftanna (lóðr.ás) í þessari hrinu 14.-27.júní sem fall af tíma (á láréttum ás)
Mynd 2 (efsta myndin) sýnir stærð skjálftanna sem mældust á svæðinu síðustu fjögur árin fram að hrinunni nú í júní (frá júlí 2000). Sjá má að skjálftar á þessu svæði eru nokkuð tíðir. Miðmyndin sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta á sama tímabili og má þar glöggt sjá að stór hrina varð á svipuðum slóðum síðla árs 2001.
Mynd 1
Mynd 2
Sérstökum afstæðum endurstaðsetningaraðferðum (relative locations) var beitt til að fá betri/nákvæmari staðsetningar fyrir skjálftana í nýju hrinunni. Mynd 3 sýnir kort af umræddu svæði og staðsetningar skjálftanna fyrir (rauðgular) og eftir (grænar) endurstaðsetningu. Skjálftadreifin þéttist og myndar greinilega NV-SA línu. Dýptarsnið N-S má sjá til hægri á myndinni. Langflestir skjálftarnir verða á svipuðu dýpi, 9-11km.
Mynd 3
Á mynd 4 má sjá til vinstri stækkaða mynd af sprungunni. Hægra megin er þversnið og horft er í stefnu litla striksins á hringnum á innfelldu myndinni, þ.e. u.þ.b. í 30° norðan við vestur (N300°A). Hér sést betur hvernig hún skiptist upp í nokkra búta. Merktar hafa verið með númerum fjórir bútar, tveir sem hafa sömu stefnu og heildarsprungan (1 og 4) og svo tveir sem virðast hafa N-S stefnu (3 og 2 óljósari).
Mynd 4
Á næstu mynd (mynd 5) má sjá nánar sprungubút nr.1. Hægra megin er þversnið en nú er horft þvert á sprunguflötinn (u.þ.b. í NA). Skífurnar eru skalaðar eftir stærð brotflatar skjálftanna og hökin gefa til kynna hreyfistefnu, skv. líklegustu brotlausnum. Sjá má að flest hökin sýna hreyfingu annaðhvort upp og til vinstri eða niður og til hægri. Hreyfing e.t.v. mismunandi eftir tíma? Strikstefna sprungunnar er N311°A og hún er nær lóðrétt (halli 89° til NA).
Mynd 5
Hér má sjá sams konar mynd af sprungubút nr.3 (mynd 6). Á hægri helmingi er aftur horft þvert á sprunguflöt og hér til nær austurs (83°). Hökin í skífunum sýna nær allar hreyfingu til hægri, sem þýðir að blokkin sem staðið er á þegar horft er til austurs (vestur blokkin) er að hreyfast til hægri, og mótblokkin til vinstri, þ.e.a.s. vinstri sniðgengisfærsla.
Mynd 6
Á mynd 7 má sjá sprungubút nr.4. Brotlausnirnar eru afar breytilegar og virðast ekki gefa til kynna neina ákveðna hreyfistefnu. Það er hugsanlegt að þessi bútur, og sá nr.1, skiptist upp í margar litlar N-S sprungur. Það mætti skoða nánar.
Mynd 7
Síðasta myndin sýnir sprungubút nr.2. Eins og fyrir sprungu 3, sem hefir einnig stefnu N-S, sýna nær allar brotlausnir hreyfingu til hægri, þ.e. vinstri sniðgengisfærslu. Sumar skífurnar hafa tvö hök. Í þeim tilfellum hefur stefna fyrsta útslags (skautun) ekki verið valin á neinni stöð og því ekki hægt að ákvarða hreyfistefnu. Strikstefna: 15°; halli: 89°.
Mynd 8
29. júní 2004
Sigurlaug Hjaltadóttir
©Veðurstofu Íslands, eðlisfræðisviði