Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20050620 - 20050626, vika 25

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 240 skjálftar voru staðsettir í vikunni svo og nokkrar sprengingar. Smáhrina varð við Kleifarvatn aðfararnótt miðvikudags, en hún var að mestu gengin yfir kl. 9 um morguninn. Á laugardag var aukin virkni á Reykjaneshrygg við u. þ. b. 62°N, eða á svipuðum slóðum og hrinan sem hófst 10. maí í ár. Skjálftarnir sjást greinilega á óróaplottum, en aðeins stærstu skjáftarnir, sem voru um 3,5 af stærð, voru staðsettir.

Reykjanesskagi

Hrina hófst í Kleifarvatni kl. 3 aðfararnótt 22. júní. Hrinan náði hámarki kl 7:43 með skjálfta sem mældist af stærð 3,5. Alls mældust 75 skjálftar frá mánudegi til laugardags.

Suðurland

Upp úr hádegi á mánudag hófst smá hrina við Nesjavelli og mældust 15 skjálftar á stærðarbilinu 0 - 1,9 þann daginn. Skjálftarnir mælast á 5,5-6 km dýpi nánast beint undir borholu sem verið er að bora þessar vikurnar. Borunin hófst í lok maí, en þá varð líka smá hrina. Svo virðist sem hrinan núna tengist því að á rúmlega 1km dýpi fór borinn gegnum vatnsleiðandi lag sem leiðir vatn úr borholunni, en meiri rannsóknir þarf til að fullyrða að svo sé. Alls mældust þarna 26 skjálftar í vikunni. Að öðru leit var skjálftavirknin á Suðurlandi nokkuð hefðbundin.

Norðurland

Um 50 skjálftar mældust norður af landinu í vikunni, þeir stærstu af stærð 2. Virknin er dreifð og engar sérstakar hrinur í gangi.

Hálendið

Aðfararnótt mánudags, um kl. 4:30 mældust 15 smáskájftar um 4 km NV af Herðubreið. Aðeins 1 skjálftanna náði stærðinni 1. Þ. 23. og 24. mældust 3 skjálftar af svipaðri stærð undir Herðubreið. Í Vatnajökli mældust skjálftar við Þórðarhyrnu, á Lokahrygg, við Bárðarbungu og í Kverkfjöllum. Einn skjálfti mældist við Kverkárrana, norðan jökulsins. Hér má sjá skjálftavirknina frá áramótum í norðanverðum Vatnajökli og á hálendinu norðan jökuls. Á kortinu sjást líka sprengingar við Kárahnjúkavirkjun.

Mýrdalsjökull

Undir Mýrdalsjökli mældust 18 skjálftar, flestir mjög smáir. Aðeins 2 skjálftanna náðu stærð 2. Álíka virkni er undir Goðabungu og undir Kötluöskjunni.

Steinunn S. Jakobsdóttir