Ísskjálftavirkni í Skeiðarárjökli 19. og 20. nóvember



Dagana 19. og 20. nóvember 2005 voru staðsettir um 50 ísskjálftar í Skeiðarárjökli. Auk þess sáust um 30 atburðir á mælum sem ekki var hægt að staðsetja, en eiga líklega upptök í Skeiðarárjökli. Báða dagana röðuðu skjálftarnir sér á N-S línu vestan til í jöklinum. Reynslan sýnir að skjálftar í vestanverðum jöklinum tengjast yfirleitt hlaupum úr Grænalóni. Stutt er síðan Grænalón hljóp og líkur eru á að af og til renni úr lóninu inn undir jökulinn. Það veldur misskriði í jöklinum (vestari hlutinn skríður hraðar fram) og ísskjálftar verða á mótum þar sem hraðabreytingar eru mestar. Myndin að neðan sýnir óróarit frá jarðskjálftastöðinni á Kálfafelli frá 19. og 20. nóvember. Hver "tittur" er oftast vegna ísskjálfta.



Allnokkur úrkoma mældist á Laufbala (39 km SV af Grænalóni) þann 19. nóvember. Línuritið að neðan sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta (rauður ferill) og uppsafnaða úrkomu á Laufbala (blár ferill). Ísskjálftar hófust nokkrum klukkustundum eftir að úrkoman hófst.




Halldór Geirsson og Matthew J. Roberts