Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20060306 - 20060312, vika 10

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í viku 10 mældust 285 skjálftar og nokkrar sprengingar. Stærsti skjálftinn varð austan Kleifarvatns klukkan rúmlega hálf þrjú á mánudag og var sá metinn af stærð 4,6. Alls mældust 69 skjálftar við Kleifarvatn í vikunni. Á Reykjaneshrygg mældust 44 skjálftar, sá stærsti 3,4 og norður af Grímsey mældust 35 skjálftar, sá stærsti um 3. Þetta voru virkustu svæðin þessa vikuna.

Suðurland

Mánudaginn 6. mars kl. 14:30 hófst hrina jarðskjálfta rétt austan Kleifarvatns. Stærsti skjálftinn, sem mældist af stærð 4,6, varð kl. 14:32. Skjálftinn fannst vel í Reykjavík og allt norður í Skorradal og austur á Hvolsvöll. Fyrstu 70 mínúturnar á eftir mældust um 40 eftirskjálftar, en síðan dró verulega úr virkninni. Þetta kort sýnir virknina við Kleifarvatn nú (bleikir hringir) í samanburði við skjálftavirknina árið 2000 (appelsínugulir hringir). Kortið sýnir endurstaðsetta skjálfta með afstæða skekkju innan við 100 m í lengd, breidd og dýpi. Þess má til gamans geta að fyrsta klukkutímann eftir skjálftann mældust um 900 heimsóknir á Skjálftavefsjá Veðurstofunnar. Nokkur virkni var úti á Reykjaneshrygg, út af Geirfugladrangi, á undan hrinunni við Kleifarvatn og seinni part vikunnar jókst virknin aftur bæði við Kleifarvatn og Geirfugladrang. Aðfararnótt laugardags mældust 22 skjálftar undir Hjallafjalli, vestur af Hjallahverfinu í Ölfusi. Stærsti skjálftinn mældist af stærð 2. Auk þess mældust skjálftar á Mosfellsheiði og við Skeggja í Henglinum.

Norðurland

Virkni hélt áfram norður af Grímsey mest alla vikunna. Annars var virknin frekar lítil norður af landinu nema hvað allnokkrir skjálftar mældust með upptök á afmörkuðu svæði rétt suður af Flatey.

Hálendið

Undir Mýrdalsjökli mældust 6 skjálftar, 2 undir Goðabungu og 4 í vesturjöklinum. Á Torfajöklulssvæðinu mældust 3 skjálftar. Virknin í Vatnajökli er með svipuðum hætti og verið hefur síðastliðna mánuði. Föstudaginn 10. mars mældist skjálfti af stærð 2,2 í norðaustanverðum Hofsjökli og dagana 8.-9. mars mældust 9 skjálftar á þremur stöðum umhverfis Langjökul, í Skjaldbreið, norðan Sandvatns og í Þjófadalafjöllum vestan við Hveravelli.

Steinunn S. Jakobsdóttir