Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20060417 - 20060423, vika 16

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni mældust 248 skjálftar og 19 sprengingar eða líklegar sprengingar.

Suðurland

Þann 19.- 20. apríl mældust 4 skjálftar á Reykjaneshrygg. Tveir áttu upptök um 270 km suðvestur af Reykjanestá og hinir 2 um 170 km frá Reykjanestánni. Stærðir þeirra voru á bilinu 2.5 - 3.5.
Þann 18.04. var jarðskjálftahrina með upptök um 5-6 km norðaustur af Eldey á Reykjaneshrygg. Stærsti skjálftinn í hrinuni var 2.3 að stærð.
Fáeinir skjálftar áttu upptök suðvestan í Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga í vikunni.
Við Bláfjöll voru 3 skjálftar. Einnig voru fáeinir smáskjálftar á Hengilssvæðinu.
Á Suðurlandi voru nokkrir smáskjálftar með upptök í Ölfusi og á Hestvatns- og Holtasprungunni.
Þann 23.04. kl. 10:26 var skjálfti að stærð 1.3 með upptök við Vestmannaeyjar.

Norðurland

Þann 19.04 voru 2 skjálftar að stærð 2.4 og 2.9 við SPAR misgengið á Kolbeinseyjarhrygg um 240 km norður af Grímsey.
Á Tjörnesbrotabeltinu úti fyrir Norðurlandi voru skjálftar með upptök norður af Siglufirði, í Grímseyjarsundi og á svonefndu Grímseyjarbelti eða norðan við Grímsey og inn í Öxarfjörð. Stærsti skjálftinn þar var 2.6 að stærð með upptök í Skjálfandadjúpi þann 22.04. kl. 06.48.

Hálendið

Undir Mýrdalsjökli mældust 13 skjálftar. Við Goðabungu voru 4 skjálftar allir minni en 1.6 að stærð. Hinir voru undir Kötluöskjunni aðallega við norðausturbrún hennar, Austmannsbungu. Þeir voru alllir minni en 1.5 að stærð.
Á Torfajökulssvæðinu mældust 4 smáskjálftar.

Þrír skjálftar mældust norðaustur undir Bárðarbungu í Vatnajökli þann 19. og 20. apríl. Þeir voru allir um 1.7 að stærð.
Einn skjálfti var við Kverkfjöll þann 17.04.
Í kjölfar Skaftárhlaupsins mældust 2 skjálftar norðvestan við Eystri-Skaftárketilinn. Sá fyrri var þann 22.04. kl. 10:12, 1.9 að stærð og sá seinni þann 23.04. kl. 22:25, 2.3 að stærð. Seinni skjálftinn hefur siggengisbrotlausn. Tveir aðrir smáskjálftar voru vestan við ketilinn þann 23.04. kl. 16:46 og kl. 23:15. Þeir eru fremur illa staðsettir.

Allmargar óróahviður hafa mælst á jarðskjálftamælum í Skaftárhlaupinu. Fyrst kom smáhviða þann 22.04. um kl. 17:30. Þann 23.04. upp úr kl. 07 komu 2 stórar óróahviður sem mældust um nær allt land. Önnur stór óóróahviða hófst um hádegið þann 23.04. og stóð amk fram til um 14:30. Óróamyndin sýnir mælingar frá mælunum á Grímsfjalli (grf), Skrokköldu (skr) og Kálfafelli (kal) Smáóróahviður sáust á mælinum á Grímsfjalli (grf) fram undir hádegi á mánudag (24.04.). Óróahviður 22.03, 23.04 og 24.04.

Orsök þessara óróahviðna geta t.d. verið vegna mikils vatnsflóðs með miklum iðuköstum eða vegna suðu og/eða suðusprenginga þegar þrýstingur fellur í katlinum. Einnig er möguleiki á að þær séu vegna innskotavirkni.

Fyrir kl. 09 um morguninn þann 23.04. bárust allmargar tilkynningar frá Norðurlandi um mikla brennisteinsfýlu, allt frá Sauðárkróki og inn í Eyjafjarðardali. Á þessum tíma var sunnan og suðaustanátt.

Framhald var á hrinunni við Herðubreiðartögl frá fyrri viku. Um 95 skjálftar mældust þessa viku og voru stærstu skjálftarnir rúmlega 2 að stærð. Afstæðar staðsetningar sýna að upptök skjálftanna voru á brotafleti með strik um N50°A.

Tveir smáskjálftar mældust við Mývatn.

Gunnar B. Guðmundsson