Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20060925 - 20061001, vika 39

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni voru staðsettir rétt rúmlega 300 skjálftar og nokkrar sprengingar. Mest bar á virkni norðaustur af Bárðarbungu en einnig urðu litlar hrinur við Reykjanes og Kleifarvatn.

Suðurland

Dreifð virkni mældist víðan á Suðurlandsundirlendinu. Einn lítill skjálfti (M=0,6) mældist við norðurhlíðar Heklu á laugardagskvöld, en engin merki sáust þar um frekari virkni.

Reykjanesskagi

Smáskjálftahrina varð austur af Reykjanesi aðfararnótt 27. september. Þar mældust alls 40 skjálftar, sá stærsti að stærð M=3. Þá mældust 30 skjálftar þvert undir sunnanverðu Kleifarvatni. Flestir þeirra urðu að kvöldi laugardags, 30. september.

Norðurland

Afar lítið var um virkni á Norðurlandi. Einstaka skjálftar dreifðust víða um Tjörnesbrotabeltið.

Hálendið

Nánast ekkert var um virkni í nyrðra gosbeltinu, aðeins einn skjálfti mældist við Herðubreið og tveir 23-24 km norðan Mývatns.
Hrinan norðaustan við Bárðarbungu, sem hófst að kvöldi sunnudagsins 24. september, var viðvarandi út alla vikuna. Allflestir skjálftarnir voru staðsettir í þéttum hnapp rétt sunnan Kistufells. Stærsti skjálftinn varð aðfararnótt þriðjudags og var hann 3,5 að stærð. Allmargir skjálftar á stærðarbilinu 2-3 mældust í kjölfarið og næststærsti skjálfti á svæðinu í vikunni varð síðan að morgni laugardagsins 30. sept. Stærðardreifingu og staðsetningu skjálftanna og má annars sjá hér. Í lok vikunnar höfðu verið staðsettir rétt tæplega 160 skjálftar á svæðinu.
Að auki mældist einn skjálfti í Kverkfjöllum 30. sept., einn suðaustan við Bárðarbungu 27 sept., tveir norðan Grímsvatna (austan eystri Skaftárketils; einnig 27. sept) og einn við Hamarinn (1. október).

Seint að kvöldi 28. september fór að bera á ísskjálftum undir vestanverðum Skeiðarárjökli. Fleiri voru staðsettir næsta dag en hugsanlegt er að smá hlaup úr Grænalóni hafi valdið þessum skjálftum.

Mýrdalsjökull

Í Mýrdalsjökli voru staðsettir 22 skjálftar, þar af voru 7 yfir stærðinni 2. Sá stærsti varð undir vestanverðum jöklinum, hann var af stærð M=2,6.

Sigurlaug Hjaltadóttir