| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20070212 - 20070218, vika 07

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Í vikunni mældust 186 skjálftar og sprengingar. Stærsti skjálftinn var 3,1 að stærð. Hann varð austan við Grímsey, miðvikudaginn 14. kl. 15:58. Nokkuð var um frostbresti í stöðuvötnum og stíflum. Við Hágöngulón að kvöldi mánudags, við Mývatn og líklega Löginn að kvöldi laugardags og aðfararnótt sunnudags.
Suðurland
Á Suðurlandi mældust 30 skjálftar. Virknin var dreifð, en þó mældust 6 skjálftar á stærðarbilinu 0,4-1,9 í lítilli hrinu við Geitafell, sem stóð frá 12. til 14. febrúar.
Reykjanesskagi
Á Reykjanesskaga mældust 42 skjálftar. Þar af 41 í lítilli hrinu við Krísuvík, sem var í hámarki á föstudag og laugardag, þann 16. og 17. Stærðir skjálftanna voru á bilinu 0,6 til 2,9. Einn skjálfti, 1,9 að stærð varð við Elvörp þann 15.
Við Geirfulgadrang á Reykjaneshrygg mældust 7 skjálftar þann 14. og 16. Þeir voru á stærðarbilinu 2,0-2,5.
Norðurland
Á Norðurlandi mældust 65 skjálftar. Þar af voru 36 skjálftar í hrinu sem varð um 15 km austan við Grímsey. Hrinan var í hámarki miðvikudaginn 14. og þá varð einnig stærsti skjálftinn, 3,1 að stærð. Stærðardreifingin í hrinunni var 0,4-3,1, en flestir skjálftarnir voru á stærðarbilinu 1-2.
Í Öxarfirði mældust 15 skjálftar, þar af 9 sunnudaginn 18. Þeir voru á stærðarbilinu 0,7-2,5.
Hálendið
Tveir skjálftar, 1,7 og 1,9 að stærð mældust vestan við Hveravelli.
Á Torfajökulssvæðinu mældust tveir skjálftar um 2,1 að stærð.
Við Bárðarbungu í Vatnajökli varð einn skjálfti, 1,9 að stærð.
Við Öskju mældust tveir skjálftar, 1,0 og 1,9 að stærð. Tveir djúpir skjálftar, um 1,7 að stærð urðu sunnan við Herðubreiðartögl og 8 skjálftar urðu við Herðubreið. Þeir voru á stærðarbilinu 1,4-2,4.
Í Bjarnarflagi mældust tveir skjálftar um 1 að stærð, og við Þeistareyki einn, 1,5 að stærð.
Mýrdalsjökull
Í Mýrdalsjökli urðu 13 skjálftar á stærðarbilinu 0,4 - 2,4. Þar af 7 stærri en 2,0. 11 skjálftanna urðu við Goðabungu, en tveir voru í austurhluta jökulsins, annar þeirra lítill og illa staðsettur.
Kristín S. Vogfjörð