Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20070226 - 20070304, vika 09

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni hafa verið staðsettir u.þ.b. 125 skjálftar, ef frá eru taldar nokkrar sprengingar og kröftug hrina úti á Reykjaneshrygg um 70-80 km SV af Reykjanesi. Í þeirri hrinu mældust rúmlega 200 skjálftar.

Suðurland

Smáskjálftavirkni var um allt Suðurlandsundirlendið og á Hengilssvæðinu.

Reykjanesskagi

Nokkrir skjálftar mældust frá Kleifarvatni vestur fyrir Fagradalsfjall, stærsti skjálftinn var við suðurenda vatnsins 1,7 stig. Kröftug hrina hófst að kvöldi mánudags úti á Reykjaneshrygg um 70-80 km SV af Reykjanesi, stóð hún með hléum fram eftir þriðjudegi. Stærstu skjálftarnir reiknast 4,3 eða 4,0 stig á þeim kvörðum sem við notum, en þar er um nokkurt vanmat að ræða. Þá geta upptök skjálftanna verið eilítið fjær landi, en okkar staðsetningar gefa til kynna, og það hefur áhrif á stærðirnar til lækkunar. Alþjóðlegir útreikningar gefa stærstu skjálftunum stærðirnar 4,7 og 4,8 stig.

Norðurland

Stærsti skjálftinn norðan lands var norður af Tjörnesi, 2,6 stig. Þá urðu skjálftar við Þeistareyki, 2,2 og 1,6 stig að stærð.

Hálendið

Í Vatnajökli var virkni víða, stærsti skjálftinn 2,5 stig var í Kverkfjöllum, en honum fylgdu nokkrir minni. Norðaustan við Bárðarbungu var stærsti skjálftinn 1,7 stig og við Grímsvötn var einnig skjálfti 1,7 stig að stærð. Nokkur virkni var á svæðinu við Öskju og Herðubreið, en stærsti skjálftinn þar var 1,9 stig.

Mýrdalsjökull

15 skjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, um helmingur þeirra vestan við Goðabungu, þar sem sá stærsti 2,0 stig var. Aðrir voru inni í öskjunni.

Þórunn Skaftadóttir