Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20070618 - 20070624, vika 25

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 400 jarðskjálftar komu fram á mælum Veðurstofunnar vikuna 18. til 24. júní, sem og nokkrar sprengingar vegna framkvæmda. Stærstu skjálftarnir, um 2,8 að stærð, mældust við Grímsey og eins mældist skjálfti að stærð 2,6 norður á Kolbeinseyjarhrygg. Minnstu skjálftarnir voru um -0.1 til -0,4 að stærð og mældust flestir við Upptyppinga, en einnig mældust svo smáir skjálftar á Hengilssvæðinu, bæði við Nesjavelli og víðar. Athyglisverðasta virknin er hin viðvarandi virkni við Upptyppinga (Krepputungu), sem staðið hefur yfir með hléum síðan í lok febrúar. Virknin hefur öll verið á um 17 km dýpi þar til á sunnudaginn, en þá mældist grunnur skjálfti á svæðinu. Í desember 2005 og júní 2006 mældust grunnir skjálftar á þessu svæði, en annars er óvanalegt að mæla virkni nákvæmlega á þessum stað. Tveir skjálftar voru staðsettir við Hornafjörð.

Suðurland

Smá hrina varð aðfaranótt miðvikudags við Nesjavelli. Stærsti skjálftinn var um 2,4 að stærð, en alls mældust 18 skjálftar.

Reykjanesskagi

Virknin undir Vífilsfelli var að mestu gengin niður, en þó mældist að meðaltali um einn skjálfti á dag alla vikuna. Einn skjálfti mældist norður af Brennisteinsfjöllum. Hrinunni úti fyrir Hafnabergi lauk í byrjun vikunnar, en skjálftar mældust við Eldey og Geirfugladrang á fimmtudag.

Norðurland

Seinni part vikunnar hófst hrina austur af Grímsey, sem síðan færðist norður fyrir eyna. Stærsti skjálftinn var um 2,6. Tveir skjálftar mældust við Þeistareyki og einn nálægt Leirhnjúki. Virkni mældist einnig í Öxarfirði og úti fyrir mynni Eyjafjarðar.

Hálendið

Tveir skjálftar mældust við Sandvatn sunnan Langjökuls. Mest var virknin á hálendinu við Upptyppinga, en þar mældust 240 skjálftar á stærðarbilinu -0,4 til 2. Alls hafa nú mælst 1500 skjálftar við Upptyppinga. Auk þess mældust á þriðja tug skjálfta á svæðinu milli Öskju, Herðubreiðar og Upptyppinga. Nokkrir skjálftar mældust í norð-vestanverðum Vatnajökli.

Mýrdalsjökull

Lítil virkni var undir Mýrdalsjökli og náði enginn skjálfti stærð 2. Þrír skjálftar mældust norður af Steinholtsjökli við Þórsmörk og lentu allir á yfir 10 km dýpi.

Virkni vikunnar dag fyrir dag

18. júní: Virknin við Upptyppinga hélt áfram og mældust 88 skjálftar á stærðarbilinu 0 - 1,5. Út af Reykjanesskaga mældust 8 skjálftar, sá stærsti 1,8. Tveir smáskjálftar mældust við Sandvatn á Haukadalsheiði. Hrinan undir Vífilsfelli virðist gengin yfir. Skjálfti mældist við Steinholtsjökul í Eyjafjallajökli. Einn og einn skjálfti á Suðurlands- og Tjörnesbrotabeltunum.
19. júní: Áfram virkni við Upptyppinga og tveir skjálftar við Herðubreið. Einn skjálfti mældist við Vífilsfell og smáhrina varð við Nesjavelli. Tveir skjálftar mældust við Steinholtsjökul í Eyjafjallajökli á svipuðum stað og í gær og einn við Goðabungu í Mýrdalsjökli. Svipuð virkni og í gær á Norður- og Suðurlandi.
20. júní: Rólegur dagur, ekki mældust nema 26 skjálftar á landinu, þar af 8 við Upptyppinga. Hrinunni við Nesjavelli lauk rétt uppúr miðnætti og einn skjálfti mældist við Vífilsfell (Jósefsdal).
21. júní: Smá hrina varð austur af Grímsey milli klukkan 13 og 16 í dag. Alls mældust 7 skjálftar, sá stærsti var 2,8 en sá minnsti 1,5. Hrinan við Upptyppinga tók sig upp aftur og mældust þar 90 skjálftar í dag, sá stærsti um 2 að stærð. Auk þess mældust 2 skjálftar við Herðubreiðartögl. Skjálfti að stærð 2,1 mældist á Torfajökulssvæðinu. Einn skjálfti mældist við Vífilsfell og tveir á Reykjaneshrygg við Eldey og Geirfugladrang.
22. júní: Áframhaldandi virkni var austur af Grímsey í nótt og mældust þar 7 skjálftar, sá stærsti 2,7. Rólegt hefur verið við Upptyppinga, þar hafa aðeins mælst 6 skjálftar og 1 við Herðubreiðartögl. Skjálfti að stærð 1,5 mældist undir norðanverðri Kötluöskju í Mýrdalsjökli. Undir Vífilsfelli mældust 2 smáskjálftar, 1 við norðanverð Brennisteinsfjöll og 1 smáskjálfti norður af Trölladyngju á Reykjanesskaga. Í Borgarfirði mældist einn atburður, en ekki hefur verið athugað hvort um sprengingu geti verið að ræða. Sprengingar í Mosfellsbæ og við Ufsalón hafa komið fram á mælum.
23. júní: Rólegur dagur með 20 mældum skjálftum, þar af 7 við Upptyppinga og 1 norður á Kolbeinseyjarhrygg. Skjálfti að stærð 2 mældist á Lokahrygg í Vatnajökli.
24. júní: Heldur líflegra með virkni norður af Kollóttudyngju, við Upptyppinga (3 skjálftar), í Vatnajökli, á Torfajökulssvæðinu, austur og norður af Grímsey, við Þeistareyki, undir Mýrdalsjökli og við Hornafjörð auk nokkurra smáskjálfta á Suðurlandi. Alls mældust 35 skjálftar.

Steinunn S. Jakobsdóttir