| Veðurstofa Íslands
Eðlisfræðisvið |
Lýsing á skjálftavirkni í viku 3, 2008
15.jan.2008 09:40: Vikan fer býsna rólega af stað með dreifðri
smáskjálftavirkni. Milli 6 og 7 í morgun var hressileg jarðskjálftahrina
norður á Kolbeinseyjarhrygg, um 400 km norður af Íslandi og um 250 km ASA
af Jan Mayen. Hér má sjá kort frá
EMSC í Evrópu og
hér má sjá kort frá
NEIC. Stærsti skjálftinn var um 4.8 að stærð og sást vel á mælum hér á Íslandi - hér má sjá óróarit frá jarðskjálftastöðvum á
norðurlandi.
16.jan.2008 14:30: Ekki varð meira úr hrinunni norður á Kolbeinseyjarhrygg í gær. Nokkrir smáskjálftar hafa mælst við Hamarinn í Vatnajökli og í Torfajökulsöskjunni. Annars meinhægt.
17.jan.2008 11:30: Allt með kyrrum kjörum. Enn rjátlast inn smáskjálftar við Hamarinn og er virknin þar með mesta móti síðan 1997 (eftir Gjálpargosið).
18.jan.2008 13:55: Í gær og í morgun hélt áfram jarðskjálftavirkni kennd við Upptyppinga. Virknin er nú það austarlega að réttara er að kenna hana við Álftadalsdyngju, allstóra grágrýtisdyngju sem var virk á þarsíðasta hlýskeiði. Hér má sjá kort af virkninni síðan 16. desember 2007 (appelsínugulir skjálftar eru frá því í morgun). Hér má svo skoða tímaþróun virkni við Upptyppinga og Álftadalsdyngju. Annars er allt með kyrrum kjörum.
19.jan.2008 15:20: Í morgun kl. 10:10 varð skjálfti af stærðinni 2,9 um 15 km SSV af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg (um 40 km frá landi). Annars meinhægt.
20.jan.2008 17:30: Lítil hrina mældist skammt sunnan af Hrómundartindi í Grafningshreppi milli klukkan 4:40 og 6:10 í morgun. Stærstu skjálftarnir voru 2,0 að stærð, en alls voru staðsettir 10 skjálftar. Virkni heldur áfram úti á Reykjaneshrygg.
Halldór Geirsson