| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20080310 - 20080316, vika 11
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Í vikunni voru staðsettir 841 atburður, þar af 12 líklegar sprengingar vegna framkvæmda. Langmest bar á virkni við Álftadalsdyngju og Upptyppinga en þar voru staðsettir 690 atburðir. Stærstu skjálftar vikunnar voru aftur á móti við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg, austan við Grímsey og skammt norðaustan af Bárðabungu og voru þeir 2,4 til 2,7 að stærð.
Suðurland
Örfáir smáskjálftar mældust á Suðurlandi og nokkir skjálftar á víð og dreif á Hengilssvæðinu. Líklegt er að sjö atburðir í NV jaðri Hveragerðis séu framkvæmdasprengingar, en það hefur ekki fengist staðfest.
Reykjanesskagi
Einn skjálfti, 0,9 að stærð, varð undir Vífilsfelli og nokkrir smáskjálftar urðu eigi langt frá Trölladyngju á Reykjanesskaga. Tveir atburðir mældust vestast á skaganum og einn úti á hrygg, um 45 km frá landi.
Norðurland
40 skjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi á hefðbundnum stöðum: Á Grímseyjarbeltinu svonefnda sem nær frá Grímsey að Kópaskeri, og úti fyrir mynni Eyjafjarðar.
Upptyppingar og Álftadalsdyngja
Alls mældust tæplega 700 skjálftar við Upptyppinga og Álftadalsdyngju. Flestir skjálftanna
voru vestast í Álftadalsdyngju, en þrír skjálftar urðu vestan Upptyppinga og voru þeir skjálftar á
meira dýpi en hinir.
Hér má skoða ýmis línurit af hvernig virknin þróaðist í vikunni.
Á mánudegi 10. mars var frekar rólegt og skjálftarnir um miðja Álftadalsdyngjuna.
Aðfaranótt þriðjudags hefst merkilega atburðarás þar sem virknin færist með tiltölulega
jöfnum hraða til vesturs, rétt vestur fyrir Álfdadalsdyngjuna. Seint á miðvikudagskvöldi
færist virknin snarlega aftur dálítið til austurs og sígur svo eilítið vestur á bóginn
og svo dregur hægt og rólega úr virkninni utan smá skots aðfaranótt sunnudags.
Ef rýnt er í dýpi skjálfta í vikunni þá má sjá eilitla grynnkun. Skilin virðast helst vera
milli miðvikudags og fimmtudags og skjálftarnir virðast liggja grynnra á fimmtudegi
og föstudegi, en ekki munar miklu þar. Staðfest er með GPS mælinugm að kvikuhreyfingar
fylgja skjálftavirkninni við Upptyppinga og Álftadalsdyngju. Það er erfitt að segja til
um hvort virkni þessarar viku standi í beinum tengslum við kvikuhreyfingar þannig að
kvika hafi bókstaflega verið að færast frá austri til vesturs. Jarðskjálftavirknin þarf ekki
að vera á nákvæmlega sama stað og mesta aflögun vegna kvikuhreyfinga - það er t.d. þekkt
úr Hengilshrinunni 1994-1998 og innskotavirkni við Eyjafjallajökul 1999. Það er því eins
líklegt að færsla jarðskjálftavirkninnar endurspegli breytingar í spennusviði, en ekki endilega
eiginlega tilfærslu á efni. Jæja, það verður áhugavert að sjá hvernig framhaldið verður þarna.
Hálendið
Þann 16. mars kl. 03:47 varð skjálfti af stærðinni 2,7 NA í Bárðabungu. Um 10 smærri skjálftar fylgdu í kjölfarið.
Tveir skjálftar mældust á Lokahrygg í Vatnajökli og einn undir Kverkfjöllum.
4 skjálftar mældust við Öskju og á annan tug skjálfta mældist SV af Herðubreið.
3 skjálftar mældust í Torfajökulsöskjunni.
Mýrdalsjökull
Sjö skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, allir smáir (undir 1.7 að stærð). Athygli vekur að þeir skjálftar sem voru austan til í jöklinum voru á 10 til 24 km dýpi. Einn smáskjálfti mældist undir Eyjafjallajökli.
Að neðan má lesa um gang vikunnar frá degi til dags.
Mánudagur 10. mars kl. 14:00: Kl. 09:31 og 09:36 í morgun urðu tveir skjálftar af stærðinni 2,6 og 2,4 um 15 km A af Grímsey. Enn mjatlast inn stöku skjálftar í Álftadalsdyngju og hafa þrír verið staðsettir í dag. Annars meinhægt.
Þriðjudagur 11. mars kl. 16:50: Virkni við Álftadalsdyngju hefur aðeins tekið sig upp aftur í dag, en um 60 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Virknin virðist heldur vera vestar en upp á síðkastið. Annars meinhægt.
Miðvikudagur 12. mars kl. 09:20: Jarðskjálftahrina varð í morgun milli kl. 07:30 og 09:00 í vestanverðri Álftadalsdyngju. Alls hafa um 75 skjálftar verið staðsettir sjálfvirkt á svæðinu frá kl. 7:30. Hrinan er nú í rénum. Enginn gosórói fylgir virkninni.
Fimmtudagur 13. mars kl. 10:10: Ekkert lát er á virkninni við Álftadalsdyngju. Eftir hrinuna í gærmorgun dróg hægt og rólega úr virkninni, en seint í gærkvöldi kom önnur hviða. Alls mældust sjálfvirkt um 200 skjálftar á svæðinu í gær og eru þeir flestir vestast á Álfdadalsdyngjunni, sjá kort. Nokkur virkni hefur verið í morgun og hafa mælst um 100 skjálftar það sem af er dags og eru þeir á sama stað og í gær. Hér má fylgjast með og skoða framvindu virkninnar með tíma.
Föstudagur 14. mars kl. 12:00: Enn skelfur við Álftadalsdyngju og Upptyppinga. Í gærmorgun var allnokkur virkni sem nokkuð dró úr upp úr hádegi. Síðan þá var virknin verið nokkuð jöfn, en frá 8 í morgun hefur mjög dregið úr virkninni. Skjálftarnir eru sem fyrr vestast í Álftadalsdyngju eða þar rétt vestur af. Annars staðar á landinu er engin virkni sem heitið getur.
Laugardagur 15. mars kl. 14:10: Lítil virkni hefur verið við Upptyppinga frá hádegi í gær. Annars meinhægt.
Sunnudagur 16. mars kl. 11:20: Síðastliðna nótt kl. 03:47 varð skjálfti af stærðinni 2,7 á Richter norðaustan í Bárðabungu í Vatnajökli. 8 skjálftar, sá stærsti af þeim 1,6 að stærð, fylgdu í kjölfarið. Skjálftavirkni er ekki óalgeng á þessum slóðum. 17 smáskjálftar hafa mælst vestan í Álftadalsdyngju frá miðnætti og urðu þeir flestir milli klukkan 1 og 3 í nótt. Annars allt með kyrrum kjörum.
Halldór Geirsson