![]() | Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið |
---|
[Fyrri mán.] | [Næsti mán.] | [Aðrir mánuðir og vikur] | [Jarðvárvöktun] |
Yfir 1500 jarðskjálftar voru staðsettir á og við landið í nóvember. Mesta virknin var á fyrsta degi mánaðarins. Þá varð kröftug hrina við Geirfuglasker og Geirfugladrang á Reykjaneshrygg, um 30 kílómetra frá landi.
Hátt á þriðja hundrað jarðskjálftar mældust neðansjávar á Reykjaneshrygg, flestir í nágrenni Geirfuglaskers. Stærstu skjálftarnir urðu aðfararnótt 1. nóvember og sá stærsti að morgni þess dags klukkan 08:13 og var hann rúmlega 4,0 að stærð.
Fyrrihluta mánaðarins mældust 136 skjálftar undir sunnanverðum Húsmúla,
um tvo kílómetra norður af Hellisheiðarvirkjun. Þessir skjálftar tengdust
niðurdælingu í rúmlega tveggja kílómetra djúpri borholu. Stærstu skjálftarnir voru
tveir að stærð. Síðasti skjálftinn mældist klukkan 20:34 þann 12 nóvember.
Rúmlega 100 skjálftar mældust á suðurhluta Kross-sprungunnar,
nærri Kaldaðarnesi. Annars staðar á Suðurlandi var rólegt.
Engar skjálftahrinur mældust á hálendi Íslands í nóvember og allir skjálftar voru undir þremur að stærð. Lítil virkni var í vestara gosbeltinu, en viðvarandi virkni var undir Vatnajökli og norðan hans, á Öskju- og Herðubreiðarsvæðinu. Flestir skjálftar mældust milli Bárðarbungu og Kistufells. Sex skjálftar mældust norðan við Tungnafellsjökul í síðustu viku mánaðarins, en virkni á svæðinu hefur aðeins aukist frá því um mitt síðasta ár.
Um 70 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli, flestir við Goðabungu. Stærstu skjálftarnir voru um og rétt yfir tveimur stigum. Rólegt var í Eyjafjallajökli.
Tæplega 400 skjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi í nóvember.
Mesta virknin var um 10 kílómetrum norðnorðaustan Grímseyjar en þar mældust rúmlega 100 skjálftar. Einnig var talsverð virkni 13 - 14 kílómetrum austsuðaustan Grímseyjar þar sem stærsti skjálftinn var rúmlega 3 stig.
Á Þeistareykjasvæðinu og við Kröflu mældust ríflega 20 skjálftar, flestir í fyrstu viku nóvember, sá stærsti 3 stig.
Norður á Kolbeinseyjarhrygg mældust tæplega 40 skjálftar, flestir í hrinu sem varð 2. dag mánaðarins og á svæðinu við Jan Mayen mældust um 10 skjálftar. Koma þessir 50 skjálftar í viðbót við þá 400 sem áður er getið.