Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20090216 - 20090222, vika 08

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni mældust 230 skjálftar á stærðarbilinu -0,5 til 3,4. Mest var virknin á Kross-sprungunni, við norðaustanverðan Langjökul, við Herðubreiðartögl og Hlaupfell, auk smáhrinu við Kleifarvatn og Fagradalsfjall. Tveir skjálftar mældust suður á Reykjaneshrygg og einn norður á Kolbeinseyjarhrygg.Sjá mynd

Suðurland

Jarðskjálftavirknin á Suðurlandi var að mestu á sunnanverðri Kross-sprungunni, en þar mældust 45 jarðskjálftar. Virknin var mest á mánudag og mældist stærsti skjálftinn 2,5. Þrír skjálftar mældust við norður enda sprungunnar og sjö á virka svæðinu þvert á Kross-sprunguna. Einn smáskjálfti mældist við Hestvatn og einn á Skeiðum.

Reykjanesskagi

Á Reykjanesskaga mældust 20 jarðskjálftar, þar af 10 við Kleifarvatn. Tveir skjálftar mældust undir Fagradalsfjalli og 7 við Núpshlíðarháls.

Norðurland

Í Tjörnesbrotabeltinu mældust 31 jarðskjálfti. Smáhrinur urðu um 40 km norður af Siglufirði og um 6-7 km norður af Gjögurtá. Í Öxarfirði mældust 5 skjálftar. Einn skjálfti mældist undir Leirhnjúkshrauni og annar nálægt Reykjahlíð. Stærstu skjálftarnir á svæðinu voru út af Tjörnesi, 2,1, og norður af Siglufirði, 2,0.

Hálendið

Jarðskjálftahrina var í gangi alla vikuna vestan við Hveravelli, við norðaustanverðan Langjökul. Náði hún hámarki á föstudag, en þá mældist skjálfti uppá 3,4. Alls mældust þarna 31 jarðskjálfti í vikunni. Einn jarðskjálfti mældist á Torfajökulssvæðinu og einn undir Tungnafellsjökli. Jarðskjálftar mældust víða undir Vatnajökli. Ísskjálftavirkni var í Skeiðarárjökli, tveir skjálftar mældust austan Grímsvatna, þrír við Kverkfjöll og níu norðan og austan í Bárðarbungu. Tuttugu skjálftar mældust við Hlaupfell í Kverkfjallasprungureininni og 23 norðarlega í Herðubreiðartöglum, auk nokkurra skjálfta undir Herðubreið og í nágrenninu.

Mýrdalsjökull

Rólegt var undir Mýrdalsjökli. Tveir jarðskjálftar mældust undir Kötluöskjunni og einn við Goðabungu.

Steinunn S. Jakobsdóttir

Mánudagur 16. febrúar: Í dag mældust 38 skjálftar, þar af 21 á syðri hluta Kross-sprungunnar og einn þar vestur af. Sá stærsti var um 2,1 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust í vestanverðu Tjörnesbrotabeltinu, norður af Eyjafirði, sá stærsti af stærðinni 2. Auk þess mældust skjálftar norður af Gjögurtá og í Öxarfirði. Þá mældust skjálftar undir Mýrdalsjökli, Bárðarbungu og Herðubreið. Tveir skjálftar mældust við norðaustanverðan Langjökul, um 4,5 km suðvestur af Hveravöllum. Sá stærri mældist 2,3, og var það stærsti skjálftinn í dag. Ein sprenging mældist í Helguvík.

Þriðjudagur 17. febrúar: Jarðskjálftavirknin við Langjökul hélt áfram og mældust tveir skjálftar til viðbótar í dag. Heldur rólegra var á Kross-sprungunni en í gær og mældust þrír skjálftar þar, tveir suður af Skálafelli og einn við Hrómundartind. Smáskjálfti mældist við Hestvatn og annar á Skeiðum, rétt vestan Þjórsár. Nokkur ísskjálftavirkni var í Skeiðarárjökli. Tveir skjálftar urðu við Herðubreið og Herðubreiðartögl, einn austan Grímsvatna og einn í Tungnafellsjökli. Þrír skjálftar mældust í Öxarfirði og einn norður af Gjögurtá. Enginn skjálfti hefur náð stærðinni 2 í dag.

Miðvikudagur, kl. 17:25: Tveir jarðskjálftar mældust á Skeiðum. Smáhrinur urðu vestan og norðan við Krýsuvík og mældust þar 12 skjálftar samanlagt, sá stærsti 1,5. Einn skjálfti mældist undir Fagradalsfjalli. Þrír jarðskjálftar mældust við Bárðarbungu, allir á stærðarbilinu 2,1 - 2,4. Einn skjálfti varð austur af Grímsey, einn í Öxarfiði og ein sprenging mældist við Akureyri. Um fimmleytið hófst jarðskjálftahrina við Herðubreiðartögl.