Jarðskjálftar 20090223 - 20090301, gangur viku 09

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Þriðjudagur 24. feb. kl. 13:40: Tiltölulega rólegt það sem af er vikunni. Nokkrir smáskjálftar hafa verið að tínast inn við Krýsuvík á Reykjanesskaga. Einn jarðskjálfti, 1,9 að stærð, varð við Hamarinn í Vatnajökli í gær og tveir minni skjálftar mældust við Bárðabungu. Þá hafa mælst um 10 smáskjálftar við Hlaupfell skammt norðan Upptyppinga. Tveir skjálftar um 2,5 að stærð urðu í gær um 30 km sunnan við Kolbeinsey.
Mið. 25. feb. kl. 11:20: Í gærkvöld klukkan 22:39 varð stakur jarðskjálfti af stærðinni 2,8 skammt frá Hveravöllum, en þar var talsverð virkni í síðustu viku. Auk þess mældust nokkrir smáskjálftar á Suðurlandi, við Grímsey og norðan Upptyppinga. Meinhægt.
Fim. 26. feb. kl. 15:00: Allt með kyrrum kjörum.
Fös. 27. feb. kl. 11:25: Enn er frekar rólegt. Fjórir smáskjálftar mældust um 5 km SSA af Flatey í nótt, annars voru örfáir skjálftar á stangli. Nokkuð hefur verið um frostbresti á Hálendinu og norðan lands. Hér má sjá dæmi um frostbresti frá jarðskjálftastöðinni á Grímsstöðum á Fjöllum. Við Hveravelli eru enn þónokkur skjálftavirkni, en skjálftarnir eru það smáir að ekki er hægt að staðsetja þá með ásættanlegri nákvæmni. Hér gefur að líta jarðskjálftarit frá Hvervöllum sem sýnir dæmi um þessa smáskjálfta.
Lau. 28. feb. kl. 14:40: Nokkuð hefur verið um skjálfta austan við Grímsey í nótt og í morgun og norðaustan við Siglufjörð í gærkvöldi og í nótt. Stærstu skjálftarnir ná um 2,0 að stærð. Auk þess smáskjálftar á stangli hér og hvar eins og vant er.
Sun. 1. mar. kl. 01:20: Klukkan 00:41 varð skjálfti, 4,3 að stærð, undir Lokahrygg í vestanverðum Vatnajökli. Örfáir skjálftar höfðu mælst á svipuðum slóðum fyrr í vikunni. Klukkan 00:25 hófst þar snörp hrina. Enn mælast stöku skjálftar á Lokahrygg en þeir eru allir smáir. Ekki hefur orðið vart við aukinn óróa á mælum eða annað sem tengja má eldsumbrotum. Sun. 1. mar. kl. 11:40: Það dró hratt úr virkninni á Lokahrygg í nótt. Annars meinhægt. Hér má sjá kort af jarðskjálftavirkni á Lokahrygg frá 1991 til 2009. Bleikir og appelsínugulir hringir sýna hvar skjálftarnir voru í nótt. Hér má sjá tímaþróun jarðskjálftavirkni á Lokahrygg fyrir sama tímabil.
Mán. 2. mar. kl. 09:00: Hér á vefsíðunni og í fréttum hefur verið ranglega greint frá því að fara þurfi aftur til ársins 1984 til að finna stærri skjálfta á Lokahrygg. Starfsmenn Jarðvísindastofnunar hafa bent á að skjálftinn 30. september 1984 var í Bárðabungu en ekki á Lokahrygg og ég biðst afsökunar á þessum mistökum.

Halldór Geirsson