| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20090316 - 20090322, vika 12
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Í vikunni mældust ríflega 330 jarðskjálftar og 17 sprengingar eða ætlaðar sprengingar vegna framkvæmda víðsvegar um landið. Mest var virknin úti fyrir Norðurlandi og stærsti skjálfti vikunnar sem var 2,8 að stærð varð þ. 18. um 13 km norðvestur af Gjögurtá. Einn skjálfti mældist rúmlega 90 km austur af landinu og var hann rúmlega 2.
Suðurland
Tæplega 60 smáskjálftar mældust í vikunni, flestir á Kross-sprungunni.
Reykjanesskagi
Á Reykjanesskaga mældust 15 skjálftar og var sá stærsti norðvestur af Krýsuvík, liðlega 2 að stærð. Tveir skjálftar urðu á Reykjaneshrygg og náði sá stærri tveimur stigum.
Norðurland
Í vikunni mældust 172 jarðskjálftar á og úti fyrir Norðurlandi. Fjörutíu skjálftar mældust í smáhrinu út af Gjögurtá sem hófst upp úr miðnætti þann 18. og stóð fram eftir kvöldi þann 19. Stærsti skjálftinn var 2,8 og var það einnig stærsti skjálfti vikunnar. Að kvöldi miðvikudagsins þ. 18. hófst smáskjálftahrina suðaustur af Flatey og var allmikil virkni allan fimmtudaginn en á föstudeginum dró heldur úr henni en þó var nokkur virkni það sem eftir lifði vikunnar og urðu skjálftarnir ríflega 90 alls.
Hálendið
Undir Vatnajökli mældust 30 skjálftar víðsvegar í jöklinum. Stærsti skjálftinn var rúmlega 2 stig og varð undir Lokahrygg. Á föstudag og fram eftir laugardagsmorgni var nokkur ísskjálftavirkni í Skeiðarárjökli en nokkuð hafði hlýnað dagana á undan sem gæti verið orsök ísskjálftanna. Á fimmta tug skjálfta mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls. Tæplega 20 smáskjálftar urðu við Hlaupfell og litlu færri við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Níu skjálftar urðu á svæðinu umhverfis Öskju og þar varð stærsti skjálftinn norðan Vatnajökuls, rúmlega 2 stig.
Mýrdalsjökull
Átta skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, fjórir innan öskjunnar og fjórir í vesturjöklinum þar sem stærsti skjálftinn varð en hann mældist 2 stig. Einn smáskjálfti varð í Eyjafjallajökli og þrír á Torfajökulssvæðinu.
Sigþrúður Ármannsdóttir, Ólafur Stefán Arnarsson og Kristín Vogfjörð