Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20090622 - 20090628, vika 26

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni hafa 757 jarðskjálftar verið staðsettir auk sjö ætlaðra sprenginga. Mest var virknin á Reykjanesskaganum en þar hafa 496 skjálftar verið staðsettir, flestir í skjálftaröð sem hófst 25. júní við Kleifarvatn. Meginskjálftinn í skjálftaröðinni var 4,0 stig og var hann jafnframt stærsti skjálftinn sem mældist í vikunni.

Suðurland

Tæplega 70 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu og í Ölfusi, þar af 40 skjálftar á Kross-sprungunni. Auk þess voru nokkrir smáskjálftar á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Tæplega 500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir á Reykjanesskaganum þar sem töluverð virkni hefur verið undanfarnar vikur. Flestir skjálftarnir urðu við Kleifarvatn en þar hófst skjálftaröð síðdegis fimmtudaginn 25. júní. Kl 17:20 varð jarðskjálfti að stærð 4,0 með upptök við suðvesturhorn Kleifarvatns. Hann fannst mjög vel víða á höfuðborgarsvæðinu. Annar skjálfti sem var rúmlega þrír að stærð varð tveimur tímum síðar á sama svæði og fannst hann einnig á höfuðborgarsvæðinu. Á laugardagsmorgni fór heldur að draga úr virkninni.
Kort af upptökum jarðskjálfta við Kleifarvatn 19.-26. júní. Bláir hringir sýna jarðskjálfta frá 19.-24. júní og rauðir frá 25.-26. júní. Á kortinu eru einnig sýndar brotlausnir stærstu jarðskjálftanna á þessu tímabili. Brotlausn jarðskjálftans 25. júní sýnir nær hreina siggengishreyfingu á plani með ANA-VSV stefnu sem hallar um 70 gráður til norðvesturs. Jarðskjálftarnir þann 19. júní voru á brotaplani sem liggur í N-S stefnu. Þessi mismunur á brotahreyfingu jarðskjálftanna skýrir að hluta til hversu misvel þeir fundust á svæðinu.
Á Reykjaneshrygg mældust sjö skjálftar, sá stærsti um þrír að stærð.

Norðurland

Liðlega 70 skjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi í vikunni. Mest var virknin austan Grímseyjar. Stærsti skjálftinn var rúm tvö stig.

Hálendið

Á annan tug jarðskjálfta mældust í norðan- og vestanverðum Vatnajökli, flestir við Bárðarbungu, og var sá stærsti 1,4 stig. Tæplega 30 ísskjálftar mældust í Skeiðarárjökli frá því snemma á þriðjudagsmorgni þ. 23. og fram undir hádegi þ. 25. júní.
Norðan Vatnajökuls mældust tæplega 50 skjálftar, þar af 24 skammt norðan Herðubreiðar. Þar varð stærsti skjálftinn á svæðinu 2,2 stig.
Einn smáskjálfti varð við Skjaldbreið þann 27. júní.

Mýrdalsjökull

Einungis þrír skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, tveir innan öskjunnar og einn í vesturjöklinum. Stærsti skjálftinn var 1,3.
Í Eyjafjallajökli urðu 12 skjálftar allir innan við einn að stærð.

Sigþrúður Ármannsdóttir