Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20090713 - 20090719, vika 29

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Í vikunni voru alls staðsettir 297 atburðir, þar af 11 staðfestar eða ætlaðar sprengingar. Engar sérstakar jarðskjálftahrinur voru í vikunni, en nokkur smáskjálftavirkni var við Eyjafjallajökul og austur af Herðubreiðartöglum. Stærsti skjálfti vikunnar var 3.1 að stærð, staðsettur um 6 km norður af Háubungu á Mýrdalsjökli.

Suðurland

Smáskjálftar voru á Kross-sprungunni í Ölfusi. Einn skjálfti mældist við Heklu og annar við Mjóaskarð í Vatnafjöllum. Annars fáeinir smáskjálftar á víð og dreif.

Reykjanesskagi

Enn er nokkur skjálftavirkni við Kleifarvatn, þó mjög hafi dregið úr henni frá því sem var í maí og júní.

Norðurland

Um 80 jarðskjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi. Virknin var mjög dreifð. Smáskjálftar mældust einnig við Þeistareyki og Kröflu.

Hálendið

Þrír skjálftar, 1.5 - 1.7 að stærð, mældust í SV verðum Hofsjökli þann 16. júlí.
Fimm smáskjálftar mældust við Bárðabungu, einn við Kistufell (2.2 að stærð), tveir í Kverkfjöllum og einn norðvestur af Grímsvötnum.
Fimm jarðskjálftar voru staðsettir innan Torfajökulsöskjunnar.
Á hálendinu norðan Vatnajökuls voru staðsettir um 80 skjálftar. Flestir voru þeir á línu sem snýr í SSV-NNA og er um 5 km austur af Herðubreiðartöglum. Virknin er eilítið norðar og grynnri en smáskjálftavirknin sem hefur verið skammt norðan Upptyppinga síðan í september 2008.
Þá urðu nokkrir smáskjálftar við Öskju og vestan og sunnan Herðubreiðartagla.

Mýrdalsjökull

Á fjórða tug skjálfta var staðsettur undir Eyjafjallajökli í vikunni, flestir á um 8-10 km dýpi. Stærsti skjálftinn í vikunni var 2.9 að stærð. Líklegt er að kvikuinnskot standi nú yfir, ekki ósvipað og gerðist 1994 og 1999. GPS-landmælingar við Þorvaldseyri sýna færslu út frá Eyjafjallajökli og má fylgjast með línuritum hér. Búist er við áframhaldandi smáskjálftavirkni á svæðinu.
Undir Mýrdalsjökli voru staðsettir 13 skjálftar. Stærsti skjálftinn var 3.1 að stærð þann 16. júlí klukkan 16:45 og var í austurjaðri Kötluöskjunnar.

Halldór Geirsson


Gangur vikunnar frá degi til dags:
Mánudagur 13/7 2009 kl. 16:40: Áfram stöku skjálftar undir Eyjafjallajökli. Skjálfti af stærð 2 við Kistufell klukkan 11:54. Annars meinhægt.
Þriðjudagur 14/7 2009 kl. 16:50: Klukkan 04:39 í morgun varð skjálfti af stærðinni 2.1 vestan í Goðabungu í Mýrdalsjökli. Annars stöku skjálftar á dreif um landið.
Fimmtudagur 16/7 2009 kl. 11:20: Meinhægt. Í morgun urðu þrír skjálftar um 1.7 að stærð í SV verðum Hofsjökli. Stöku skjálftar tínast enn inn við Eyjafjallajökul. Nokkrir skjálftar mældust norðan Vaðöldu við Öskju á um 20 km dýpi í gær og er það ekki einsdæmi. Rólegt í Vatnajökli og á SV-horninu, stöku skjálftar fyrir norðan.
Föstudagur 17/7 2009 kl. 14:00: Í gær kl. 16:45 varð skjálfti af stærð um 3 undir Mýrdalsjökli. Annars tíðindalítið.
Laugardagur 18/7 2009 kl. 16:20: Í nótt kl. 01:28 varð skjálfti af stærð 0,9 við Heklu. Í gær kl. 19:19 varð skjálfti af stærðinni 2.9 undir Eyjafjallajökli og hafa örfáir smáskjálftar mælst þar í dag. Klukkan 06:16 í dag varð skjálfti af stærð 1.9 undir Kverkfjöllum. Þá hafa mælst allnokkrir skjálftar austur af Herðubreiðartöglum í vikunni.
Sunnudagur 19/7 2009 kl. 17:00: Tíðindalítið. Enn tínast inn skjálftar við Eyjafjallajökul og skammt austur af Herðubreiðartöglum.