Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20090817 - 20090823, vika 34

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Alls mældust 478 skjálftar í vikunni. Tvær hrinur settu svip sinn á vikuna. Annars vegar hrina við Herðubreiðartögl, sem hófst í lok viku 33 og er enn í gangi og hins vegar hrina við Bárðarbungu, sem varð aðfararnótt laugardagsins 22. ágúst. Um helmingur skjálftanna sem mælst hafa þessa vikuna eru við Herðubreiðartögl, en um 50 skjálftar mældust við Bárðarbungu. Tveir skjálftar mældust við Surtsey á mánudagsmorguninn.

Suðurland

Á Suðurlandi mældust 50 skjálftar og tveir við Surtsey. Mest var skjálftavirknin við Krosssprunguna, en einnig mældust skjálftar á bæði Hestvatns- og Holtasprungunni. Eins mældust skjálftar í Landsveit og við Vatnafjöll. Allt voru þetta litlir skjálftar, sá stærsti mældist í Ölfusi af stærð 2,2.

Reykjanesskagi

Um miðjan dag þann 19. ágúst mældist jarðskjálfti af stærð 3 undir Kleifarvatni og fannst hann víða í Reykjvík og nágrenni. Eftirskjálftar voru fáir. Alls mældust 29 skjálftar á Reykjanesskaga í vikunni, flestir við Kleifarvatn. Á Reykjaneshrygg mældust 6 jarðskjálftar, þeir stærstu um 2 að stærð.

Norðurland

Í Tjörnesbrotabeltinu mældust 49 skjálftar, þar af tveir á landi norður af Gjástykki. Enginn skjálftanna náði stærðinni 2.

Hálendið

Aðfararnótt laugardagsins mældist jarðskjálfti af stærð Mlw 3,6 í norðaustanverðri Bárðarbungu. Alls mældust 35 eftirskjálftar á stærðarbilinu Mlw 1,2 - 2,8. Nokkrir skjálftar til viðbótar mældust í vikunni víðs vegar um norðvestanverðan Vatnajökul.

Hrina var í gangi alla vikuna við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Alls mældust þar um 260 skjálftar á stærðarbilinu 0 - 3. Nokkrir skjálftar mældust vestan við Hlaupfell, um 8 km suðaustan við umrædda hrinu. Skjálftarnir við Hlaupfell eru flestir á 6 - 8 km dýpi, en við Herðubreið mælast líka grynnri skjálftar.

Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull

Undir Mýrdalsjökli mældust sjö skjálftar, sá stærsti var 2,2 að stærð. Fjórir skjálftar mældust undir Eyjafjallajökli og fjórir á Torfajökulssvæðinu.

Steinunn S. Jakobsdóttir