Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20090907 - 20090913, vika 37

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 500 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni auk fjögurra sprenginga og nokkurra, sem líklegt má telja að séu sprengingar. Á miðvikudegi hófst jarðskjálftahrina í Ölfusi og á fimmtudeginum í Öxarfirði.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu og í Ölfusi mældust liðlega 130 skjálftar, flestir urðu á Kross-sprungunni, sem myndaðist í skjálftunum 29. maí í fyrra. Laust fyrir hádegi á miðvikudeginum 9. september hófst jarðskjálftahrina í Ölfusinu og kl. 12:21 varð jarðskjálfti um 9 km vestsuðvestur af Selfossi og var hann tæplega 3 stig. Tilkynningar bárust um að hann hefði fundist á Selfossi, í Hveragerði og á Eyrarbakka. Hrinan stóð fram eftir degi en talsverð virkni var alla vikuna á Kross-sprungunni. Tugur smáskjálfta mældust víðsvegar um Suðurland.

Reykjanesskagi

Um 20 skjáfltar mældust á Reykjanesskaga og var sá stærsti við Kleifarvatn, tæp tvö stig að stærð. Sex skjálftar voru á Reykjaneshrygg og var sá stærsti einnig tæplega 2 stig.

Norðurland

Á og úti fyrir Norðurlandi mældust 260 skjálftar. Jarðskjálftahrina hófst á fimmtudagsmorgni þann 10. skammt norður af Tjörnesi og stóð hún fram á sunnudagsmorgun. Ríflega 190 skjálftar mældust í hrinunni og náðu nokkrir þeirra stærðinni tveimur og rúmlega það. Fyrir mynni Eyjafjarðar mældust 35 jarðskjálftar og dreifðist sú virkni á alla vikuna. Stærsti skjálftinn var 2,6 stig. Um 30 kílómetrum norðnorðvestur af Grímsey mældist skjálfti sem var tæplega 3 stig.

Hálendið

Tólf skjálftar mældust undir vestan- og norðanverðum Vatnajökli. Stærsti skjálftinn var tæp tvö stig og varð hann á Lokahrygg. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust tæplega 40 skjálftar, þar af helmingurinn við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Við Öskju varð skjálfti sem var 2,2 að stærð og var það stærsti skjálfti á þessu svæði í vikunni. Tveir smáskjálftar urðu við Langjökul og einn norðan Hveravalla og var hann 2,1 stig.

Mýrdalsjökull

Nítján skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, fimm innan öskjunnar en aðrir í vesturjöklinum. Stærsti skjálftinn var í austurjaðri öskjunnar og var hann 2,6 stig. Í vesturjöklinum var stærsti skjálftinn tæp tvö stig. Einn smáskjálfti varð undir Eyjafjallajökli og fjórir á Torfajökulssvæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir