Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið

Jarðskjálftar í janúar 2010

[Fyrri mán.] [Næsti mán.] [Aðrir mánuðir og vikur] [Jarðvárvöktun]

Upptök jarðskjálfta á Íslandi í janúar 2010. Rauðir hringir tákna jarðskjálfta.
Á kortinu eru einnig sýnd eldstöðvakerfi (Páll Einarsson og Kristján Sæmundsson, 1987).

Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2010

Tæplega 1.500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL kerfi Veðurstofunnar í janúar 2010. Stærstu skjálftarnir voru 3,5 stig og mældust í hrinu austan við Grímsey. Mikil skjálftavirkni mældist einnig undir Eyjafjallajökli.

Á fjórða tug skjálfta voru staðsettir á Reykjaneshrygg, flestir við Eldey. Fáir skjálftar mældust á Reykjanesskaga og flestir þeirra við Kleifarvatn.

Í síðustu viku desember 2009 var aukin skjálftavirkni á suðurhluta Kross sprungunnar. Hún hélt áfram fyrstu vikur ársins, en það dró verulega úr henni eftir miðjan mánuðinn. Stærsti skjálftinn, 2,3 stig, varð 5. janúar og fannst hann a.m.k. á Eyrarbakka. Lítil skjálftavirkni mældist á Suðurlandsundirlendi.

Tiltölulega fáir skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli þennan mánuðinn. Um 20 skjálftar voru staðsettir í eða við Goðabungu og átta skjálftar voru staðsettir rétt við öskjujaðarinn eða innan öskjunnar. Þeir tveir skjálftar sem urðu við austurjaðar öskjunnar urðu nærri sigktötlum nr. 10 og 11, þann 14. janúar (ML 2,5 sem var jafnframt stærsti skjálftinn í Mýrdalsjökli) og þann 16. janúar (ML 1,4).

Öllu líflegri virkni mældist undir Eyjafjallajökli og frá áramótum hefur innskotshrinan, sem hófst þar í júní síðastliðið sumar, færst í aukana á ný eftir tiltölulega rólegt tímabil undanfarna 4 mánuði. Í janúarmánuði voru yfir 220 skjálftar staðsettir þar. Auk þess sem virknin er áfram áberandi mikil á 9-12 km dýpi hefur hún jafnframt aukist ofar í jarðskorpunanni, í þyrpingu á 1-4 km dýpi. Á þessu korti eru skjálftar frá september 2006 fram í desember 2009 sýndir sem svartir litlir hringir en nýlegri skjáfltar, des. 2009-feb. 2010, eru sýndir sem stærri hringir í lit eftir tíma. Hegðun virkninnar nú svipar mjög til virkninnar sem fylgdi innskotsmyndun undir fjallinu árið 1994 og árið 1999 og fram til ársins 2000, en þá færðist skjálftavirknin einnig upp til yfirborðs, þó ekki hafi orðið vart við neinn gosóróa. Samfara aukinni skjálftavirkni nú, sem og í sumar, hafa samfelldar mælingar á GPS-stöðinni á Þorvaldseyri (THEY) undir Eyjafjöllum sýnt suðurfærslu stöðvarinnar (sjá myndir). Þegar þróun skjálftavirkninnar í Eyjafjallajökli er skoðuð síðan 1994 (skjálftar yfir ML 1,2 að stærð) má sjá að virknin nú frá áramótum er sú tíðasta sem mælst hefur í Eyjafjallajökli frá upphafi stafrænna skjálftamælinga Veðurstofunnar, þótt vægisútlaust/orkuútlausn hafi enn sem komið er mælst meiri í innskotshrinunni árið 1999.

Í Vatnajökli mældust tæplega 110 jarðskjálftar. Flestir skjálftarnir voru í vesturjöklinum, undir Bárðarbungu og við Kistufell. Um tugur varð við Þórðarhyrnu og nokkrir undir Esjufjöllum. Stærsti skjálftinn í jöklinum var 2,4 stig og varð hann undir Lokahrygg.

Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust um 180 skjálftar, flestir norðan Upptyppinga og við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Stærsti skjálftinn var 2,6 stig og varð við Öskju.
Nokkrir smáskjálftar mældust við Langjökul, Kröflu og á Þeistareykjasvæðinu.

Í Tjörnesbrotabeltinu norðan við land mældust hátt í 600 jarðskjálftar. Flestir eða hátt í fimm hundruð voru í hrinu austan við Grímsey sem hófst 18. janúar og var að mestu lokið 27. janúar. Stærstu skjálftarnir voru 3,5 stig. Um 70 skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði, en ekki var um einstakar hrinur að ræða. Önnur virkni á svæðinu var lítil og dreifð.

Eftirlitsfólk í janúar: Steinunn S. Jakobsdóttir, Sigurlaug Hjaltadóttir, Sigþrúður Ármannsdóttir, Einar Kjartansson og Bergþóra S. Þorbjarnardóttir. Myndir eru einnig frá Matthew. J. Roberts og Gunnari B. Guðmundssyni.