Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið |
---|
[Fyrri mán.] | [Næsti mán.] | [Aðrir mánuðir og vikur] | [Jarðvárvöktun] |
Á landinu öllu mældust 4600 jarðskjálftar þar af 3600 í Eyjafjallajökli en þar var viðvarandi skjálftavirkni allan mánuðinn og þann 20. mars hófst eldgos á Fimmvörðuhálsi.
Nyrst á Reykjaneshrygg urðu nokkrir skjálftar frá landi út í um 95 kílómetra fjarlægð. Stærsti skjálftinn þar var 2,9 stig. Mesta virknin á Reykjanesskaganum var suðvestan við Kleifarvatn, þar sem urðu á annan tug skjálfta, sá stærsti 1,4. Þá mældust stakir smáskjálftar út eftir skaganum og í Víkum austan við Reykjanes voru staðsettir tveir skjálftar, sá stærri 2,4. Á sjöunda tug skjálfta voru staðsettir skammt vestan við Hjalla í Ölfusi, nærri Raufarhólshelli, sá stærsti var 2,1. Á Krosssprungunni voru mest smáskjálftar, en sá stærsti var 1,8 stig. Á Suðurlandsundirlendinu voru nokkrir dreifðir smáskjálftar. Við Högnhöfða mældust rúmlega 30 skjálftar, megnið á tveim dögum, sá stærsti var 2,5.
Í Vatnajökli mældust rúmlega 150 jarðskjálftar. Um 30 skjálftar voru staðsettir við Kistufell, stærstu um og rétt yfir tveimur stigum. Tæplega 60 skjálftar urðu undir Bárðarbungu og voru þeir stærstu svipaðrar stærðar og skjálftarnir við Kistufell. Við Hamarinn mældust 30 skjáfltar, stærsti skjálftinn var 2,5 stig. Tæplega 20 skjálftar urðu í nágrenni Grímsfjalls, allir um og innan við tvö stig. Um tugur smáskjálfta mældust í Kverkfjöllum. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust tæplega 240 skjálftar. Í byrjun mánaðarins gekk yfir hrina djúpra jarðskjálfta norðan við Öskju og mældust þar 70 smáskjálftar, flestir 1. og 2. mars. Á annað hundrað skjálfta mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl og um fjórir tugir undir Upptyppingum og við Hlaupfell, allt litlir skjálftar.
Yfir 300 skjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi í marsmánuði. Mesta virknin var í Öxarfirði, einkum síðari hluta mánaðarins, en þar mældust yfir 120 skjálftar. Stærsti skjálftinn varð aðfararnótt 30. mars og var hann um 3 stig. Smáskjálftahrina varð við Skógareyrar, sunnan Öxarfjarðar að kvöldi 17. mars og stóð hún í sólarhring. Rúmlega 80 skjálftar mældust austan og norðaustan Grímseyjar, stærsti skjálftinn 2,6 stig. Úti fyrir Eyjafirði mældust um 40 skjáfltar, allir innan við tvö stig að stærð. Þrír smáskjálftar urðu í Fljótum og sjö á Skjálfanda. Tíu smáskjálftar mældust norðarlega í Gjástykki þann 16. mars og voru þeir á um 7 kílómetra dýpi. Nokkrir smáskjálftar urðu einnig við Mývatn og Kröflu og á Þeistareykjasvæðinu mældist um tugur jarðskjálfta, sá stærsti 2,4 stig. Á Kolbeinseyjarhrygg mældust um 10 skjálftar og var sá stærsti 3,5 stig.
Jarðskjálftavirknin í Eyjafjallajökli, sem tók sig upp aftur í lok desember 2009, jókst enn í marsmánuði. Skjálftaþyrping sem teygði sig til suðurs frá um 20. febrúar og fram til 3. mars benti til myndun innskots undir suðausturhlíðum fjallsins á 4-8 km dýpi. Syðstu skjálftarnir í þeirri þyrpingu voru staðsettir við Raufarfell, aðeins um 3 km norður af næstu bæjum. 4. mars jókst skjálftavirknin mjög og hundruðir og jafnvel yfir þúsund skjálfta mældust daglega og færðist virknin nú að hluta til austurs, á átt að Fimmvörðuhálsi. Með nákvæmari staðsetningum, svokölluðum afstæðum staðsetningum, má sjá að skjálftarnir byrjðuðu að leita til yfirborðs 17. mars og strax að morgni 20. mars urðu grunnir skjálftar nærri gosstöðvunum. Gosið á Fimmvörðuhálsi hófst svo að kvöldi 20. mars. Ekki varð vart við neina breitingu í skjálftavirkni að kvöldi 31. mars þegar ný gossprunga opnaðist á Fimmvörðuhálsi, rétt við þá fyrri. Þann 1. mars sást jafnframt neikvæður púlsi (rúmmálsminnkun) á spennumæli á Stórólfsvoli, í 34 km fjarlægð frá megin skjálftaþyrpingunni.
Eftirlitsfólk í mars: Steinunn S. Jakobsdóttir, Sigurlaug Hjaltadóttir, Sigþrúður Ármannsdóttir, Einar Kjartansson og Bergþóra S. Þorbjarnardóttir. Myndir eru einnig frá Matthew. J. Roberts og Gunnari B. Guðmundssyni.