Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20100531 - 20100606, vika 22

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Á fjórða hundrað jarðskjálftar mældust í vikunni. Jarðskjálftahrinur voru við Raufarhólshelli í Ölfusi, Kistufell í norðvestanverðum Vatnajökli og norður af Grímsey. Óróahviður voru í Eyjafjallajökli um helgina.

Suðurland

Mánudagsmorguninn 31. maí hófst jarðskjálftahrina við Raufarhólshelli í Ölfusi. Stærsti jarðskjálftinn var um 3 að stærð kl. 07:33 sama morgun. Hann fannst í Hveragerði. Í vikunni mældust á þessum slóðum um 135 jarðskjálftar.
Í Flóanum sunnan við Hveragerði mældust 14 jarðskjálftar og voru þeir allir undir einum að stærð.
Á Rangárvöllum mældust 6 jarðskjálftar sá stærsti um 1,3 að stærð. Einnig mældust fáeinir aðrir skjálftar á Suðurlandi svo sem við Hestvatn og í Holtum.

Reykjanesskagi

Í byrjun vikunnar voru tveir jarðskjálftar um 1,5 að stærð um 3-6 km norður af Geirfuglaskeri á Reykjaneshrygg.
Tveir smáskjálftar voru við Kleifarvatn.

Norðurland

Úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti mældust rúmir 6 tugir skjálfta. Flestir þeirra voru með upptök um 10-12 km norður af Grímsey og voru stærstu skjálftarnir þar um 2,8 að stærð. Fáeinir skjálftar voru í Skjálfandadjúpi,um 20 km austur a Grímsey. Þar mældist stærsti skjálftinn 3,1 stig kl. 03:41 þann 6. júní. Skjálftar voru einnig úti fyrir mynni Eyjafjarðar, við Flatey og í Öxarfirði.

Fimm jarðskjálftar mældust við Jan Mayen þann 3. júní.

Hálendið

Undir Vatnajökli mældust 43 skjálftar. Flestir þeirra áttu upptök undir norðvestanverðum jöklinum. Stærstu skjálftarnir voru um 2,7 að stærð við Kistufell.
Í Brúárjökli mældust fáeinir smáir skjálftar sem eru lílega ísskjálftar.

Fáeinir skjálftar voru við Öskju, Herðubreiðartögl og Álftadalsdyngju.

Þrír jarðskjálftar voru við Hveravelli og einn um 12 km suðvestur af Eiríksjökli.

Mýrdalsjökull

Undir Mýrdalsjökli voru 7 jarðskjálftar. Af þeim voru 3 við Austmannsbungu en hinir við Goðabungu.

Undir og við Eyjafjallajökul mældust 25 jarðskjálftar. Flestir með upptök undir og sunnan við toppgíginn. Þeir voru allir grunnir og allir minni en 1.2 að stærð.

Upp úr miðjum degi þann 4. júní jókst órói á stöðvum kringum eldstöðina en datt svo niður um kvöldið. Smáóróahviður héldu áfram og laugardagsmorguninn 5. júní um kl. 09:00 varð óróinn hvað mestur en minnkaði síðan fram á sunnudagsmorgun. Síðdegis þann 6. júní fór óróinn aftur upp um tíma. Óróinn hefur oft risið mjög snögglega og fallið jafnsnögglega niður aftur. Hann hefur verið mestur á hærri tíðniböndunum. Einhver gosvirkni er enn vestast í gígnum og öðru hverju verða kvikusprengingar sem framleiða ösku sem berst þó ekki langt frá gígnum. Órói á jarðskjálftamælum rýkur upp við þessa sprengivirkni. Hvítir bólstrar hafa náð allt að 6 km hæð í kjölfar sprenginganna.

Gunnar B. Guðmundsson