Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20100719 - 20100725, vika 29

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Hátt í 500 skjálftar mældust í vikunni. Mesta virknin var við Grímsey en þar hófst skjálftahrina seinni part fimmtudagsins, 22. júlí. Stærsti skjálfti vikunnar varð á föstudagsmorgni norðaustan Grímseyjar og var hann 4,0 stig.

Suðurland

Tæplega 20 smáskjálftar mældust í Ölfusinu, þar af helmingurinn á Kross-sprungunni. Nokkrir smáskjálftar urðu á Hengilssvæðinu og á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Snemma á sunnudagsmorgni mældust sex skjálftar austan Fagradalsfjalls, allir innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar urðu við Krýsuvík og þrír á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Tæplega 300 skjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi í vikunni, flestir í nágrenni Grímseyjar. Skjálftahrina hófst seinni part fimmtudagsins 22. júlí u.þ.b. 12 kílómetrum norðaustan við Grímsey og stóð hún fram eftir föstudeginum en þá fór heldur að draga úr skjálftavirkninni. Stærsti skjálftinn varð kl. 08:38 á föstudeginum og var hann 4,0 stig. Engar tilkynningar bárust um að hann hefði fundist í eynni. Um kvöldmatarleytið á fimmtudeginum hófst einnig smáhrina u.þ.b. 20 kílómetrum suðaustan við eyna og stóð hún fram yfir miðnætti. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu var tæp 3 stig. Tæplega 30 skjálftar mældust í Öxarfirði og álíka margir úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu og á Þeistareykjasvæðinu.

Hálendið

Í Vatnajökli urðu 20 skjálftar. Undir Bárðarbungu mældust sex skjálftar, fjórir við Kistufell, fimm á Lokahrygg og fjórir við Grímsvötn. Stærsti skjálftinn var 2,4 stig, á Lokahrygg. Einn smáskjálfti mældist norðan Tungnafellsjökuls. Rólegt var á svæðinu norðan Vatnajökuls en þar mældust 14 smáskjálftar, flestir við Herðubreiðartögl. Sjö skjálftar mældust við Langjökul, einn í vesturjöklinum og fimm sunnan Eystri-Hagafellsjökuls.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 60 skjálftar mældust í vikunni, flestir í vestanverðum jöklinum en sjö innan öskjunnar. Stærsti skjálftinn var tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust í Eyjafjallajökli og á Torfajökulssvæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir