| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20101018 - 20101024, vika 42
PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af |
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Rúmlega 300 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Helsta virknin var undir Esjufjöllum í Vatnajökli, út á Reykjaneshrygg og við Kleifarvatn. Stærsti skjálftinn sem mældist, 4,8 stig, átti upptök út á hrygg, í yfir hundrað kílómetra fjarlægð frá landi.
Suðurland
Fáir jarðskjálftar mældust á Suðurlandsundirlendinu. Um tugur smáskjálfta voru staðsettir á Krosssprungunni, en fáir í Ölfusi og á Hengilssvæðinu.
Reykjanesskagi
Lítil skjálftaröð varð undir sunnanverðu Kleifarvatni aðfararnótt föstudagsins 22. október og hófst með skjálfta tæplega þrír að stærð kl. 00:28. Tilkynningar bárust um að hann hefði fundist í Hafnarfirði og Reykjavík. Á annan tug smáskjálfta fylgdu í kjölfarið, allir innan við einn eða um einn að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust einnig við Krýsuvík og vestan við vatnið og einn norðaustan við Grindavík.
Reykjaneshryggur
Á laugardagskvöldi 23. október hófst skjálftahrina suðvestan við Eldeyjarboða á Reykjaneshrygg. Hátt í 60 skjálftar mældust laugardag og fram á sunnudag. Stærsti skjálftinn, 4,8 stig, átti upptök yfir hundrað kílómetrum frá landi, en aðrir skjálftar voru í um 70-80 kílómetra fjarlægð frá Reykjanestá. Tveir þeirra voru stærri en fjögur stig og um tugur milli þrjú og fjögur stig. Nokkrir skjálftar mældust einnig um 5 kílómetrum frá Reykjanestá.
Norðurland
Tiltölulega rólegt var norðan við land. Um 40 skjálftar mældust, langflestir úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Stærstu skjálftarnir voru um tvö stig.
Hálendið
Skjálftahrina hófst í Esjufjöllum í Vatnajökli að kvöldi 19. október. Yfir 70 jarðskjálftar mældust út vikuna, stærstu innan við þrjú stig. Jarðskjálftar hafa áður mælst af og til á svæðinu, en síðasta hrinan var í október 2002. Þá mældust um 90 skjálftar, stærstu um 3,5 stig. Aðrir skjálftar undir Vatnajökli voru nokkrir tugir og dreifðust um norðvesturhluta hans.
Norðan Vatnajökuls var virkni lítil, en þó mældust nokkrir smáskjálftar austan við Öskju.
Mýrdalsjökull
Yfir 20 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, flestir í vestanverðum jöklinum við Goðabungu. Nokkrir smáskjálftar mældust við Eyjafjallajökul og einn á Torfajökulssvæðinu.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir