Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20101101 - 20101107, vika 44

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 400 jarðskjálftar voru staðsettir á landinu og umhverfis það í vikunni. Mesta virknin var við suðurenda Kleifarvatns, stærstu skjálftar þar voru undir tveimur stigum. Við Grímsey var stærsti skjálftinn 3,1 stig, og fleiri nokkru minni. Þónokkur smáskjálftavirkni var undir Grímsvötnum á meðan úr þeim hljóp. Þá var enn nokkur virkni undir Blöndulóni.

Suðurland

Fremur rólegt var á Suðurlandi, stærsti skjálftinn var suður af Hestfjalli, 2,1 stig að stærð.

Reykjanesskagi

Talsverð virkni var við Kleifarvatn, en vestan við suðurenda vatnsins mældust rúmlega 100 skjálftar. Sá stærsti var 1,9 stig. Á Reykjaneshryggnum urðu nokkrir skjálftar á bilinu 7 til 100 kílómetra frá landi. Þeir voru á stærðarbilinu 1,4 til 2,4 stig.

Norðurland

Talsvert mældist af skjálftum á Tjörnesbrotabeltinu, mest þó við Grímsey. Þar voru staðsettir um 40 skjálftar, þrír þeirra voru 2,5 eða stærri, sá stærsti 3,1 stig. Þá mældist skjálfti um 85 kílómetra norðaustur af Grímsey 3,4 að stærð.

Hálendið

Hlaup sem hófst í lok síðustu viku úr Grímsvötnum olli nokkrum umbrotum og mældust á fjórða tug skjálfta undir þeim í þessari viku, sá stærsti 2,4. Þá var dreifð virkni um norðvestanverðan Vatnajökul, og fjórir skjálftar voru staðsettir í Esjufjöllum, sá stærsti 2,4 stig. Við Öskju og Herðubreið voru aðeins dreifðir smáskjálftar. Virkni sem hófst í síðustu viku undir Blöndulóni sunnanverðu hélt áfram. Fimm skjálftar voru 2,5 stig eða stærri, sá stærsti 2,7.

Mýrdalsjökull

Á fjórða tug skjálfta voru staðsettir í Mýrdalsjökli, allir í vestanverðum jöklinum. Stærsti skjálftinn var 2,4 stig. Tveir smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli og nokkrir skjálftar urðu á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti þar var 2,0.

Þórunn Skaftadóttir