Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20101227 - 20110102, vika 52

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 300 jarðskjálftar voru staðsettir í vikunni. Mest var virknin í norðvestanverðum Vatnajökli, við Kistufell en þar mældust tveir stærstu skjálftar vikunnar, Ml 3,3 og Ml 3,2, báðir á gamlársdag. Heldur minni virkni var við Krýsuvík en næstu vikur á undan.

Suðurland

Um 20 smáskjálftar mældust í Ölfusi, flestir á Kross-sprungunni. Rólegt var á Suðurlandsundirlendinu.

Reykjanesskagi

Við Kleifarvatn mældust 53 jarðskjálftar og var það heldur minni virkni en vikurnar á undan. Stærsti skjálftinn var Ml 1,5. Lítið var um að vera á Reykjaneshrygg.

Norðurland

Fremur rólegt var á Norðurlandi en tæplega 50 jarðskjálftar mældust þar, flestir í Tjörnesbrotabeltinu. Allir voru skjálftarnir um og innan við tvö stig.

Hálendið

Í Vatnajökli mældust rúmlega 80 skjálftar, flestir við Kistufell í norðvestanverðum jöklinum, 54 alls. Um klukkan 10 á gamlársdagsmorgun hófst þar jarðskjáfltahrina sem stóð fram á kvöldið. Upp úr hádegi þann dag mældust tveir skjálftar með klukkustundar millibili og var sá fyrri Ml 3,2 og sá síðari Ml 3,3 sem var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Rólegra var á nýársdag en upp úr hádegi 2. janúar jókst virknin á ný og hélst út daginn. Laust fyrir klukkan 15, þann dag mældist þriðji skjálftinn sem var stærri en þrjú stig á þessu svæði, Ml 3,1. 
Tæplega 20 skjálftar mældust undir Bárðarbungu, allir litlir. Níu skjálftar urðu í nágrenni Grímsvatna og einn undir Kverkfjöllum.
Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust tæplega 20 smáskjálftar. Rólegt var við Þeistareyki og Kröflu. 

Í Vestara-gosbeltinu mældist einn smáskjálfti við Eystri-Hagafellsjökul í Langjökli, þrír í Þórisjökli og einn við Hafrafell, vestan Langjökuls.
Aðfararnótt gamlársdags mældust tveir skjálftar við Blöndulón og aðrir tveir um kvöldmatarleytið á nýársdag. Stærsti skjálftinn var Ml 2,5.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 40 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, flestir í vesturjöklinum þar sem stærsti skjálftinn var tvö stig. Við barm Kötluöskjunnar urðu fimm skjálftar, allir mjög smáir. 
Sex skjálftar mældust suður af toppgíg Eyjafjallajökuls og voru þeir einnig mjög smáir.
Á Torfajökulssvæðinu mældust einnig sex skjálftar, sá stærsti Ml 1,6.

Sigþrúður Ármannsdóttir