Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið

Jarðskjálftar í september 2011

[Fyrri mán.] [Næsti mán.] [Aðrir mánuðir og vikur] [Jarðvárvöktun]

Upptök jarðskjálfta á Íslandi í september 2011. Rauðir hringir tákna jarðskjálfta stærri en 0 að stærð.
Á kortinu eru einnig sýnd eldstöðvakerfi (Páll Einarsson og Kristján Sæmundsson, 1987).

 

Jarðskjálftar á Íslandi í september 2011

 

Hátt í 3.000 jarðskjálftar mældust í september. Rúmlega helmingur átti upptök á Hellisheiði, en þar hefur fjöldi smáskjálfta orðið vegna niðurdælingar á vatni við Hellisheiðarvirkjun. Mikil virkni var einnig í Mýrdalsjökli, en um 500 skjálftar mældust þar.

Tæplega 140 skjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi. Mesta virknin var í Öxarfirði þar sem um 60 skjálftar mældust, sá stærsti 2,5 stig. Hann var jafnframt stærsti skjálftinn á Norðurlandi í mánuðinum. Mesta virkni þar mældist í smáskjálftahrinu þann 14. september eða um 20 skjálftar. Í nágrenni Grímseyjar urðu um 20 skjálftar og litlu færri á Skjálfandaflóa. Þann 23. september, klukkan 01:03, varð jarðskjálfti af stærðinni 2,4 með upptök 10 kílómetrum norðaustur af Varmahlíð í Skagafirði. Hann fannst í nágrenni við upptakasvæðið.
Nokkrir smáskjálftar urðu við Kröflu og Þeistareyki.

Fremur rólegt var í Vatnajökli en innan við 20 skjálftar mældust í öllum jöklinum í september. Stærsti skjálftinn var undir Kverkfjöllum og var hann um þrjú stig. Heldur líflegra var á svæðinu norðan Vatnajökuls en þar urðu rúmlega 80 skjálftar, enginn stærri en tvö stig. Skjálftarnir voru dreifðir í tíma og rúmi en undir mánaðarmót mældust nokkrir smáskjálftar við Dyngjufjöll ytri en þar mælast annað slagið skjálftar.

Yfir 480 jarðskjálftar mældust innan Kötluöskju í september. Slík skjálftavirkni hefur ekki sést frá a.m.k. 1999. Stærsti jarðskjálftinn, 3,4 stig, varð 21. september kl. 10:56 og átti upptök 5,8 kílómetrum norður af Hábungu. Allir skjálftarnir í öskjunni voru á innan við 5 kílómetra dýpi. Þann 6. september varð lítið hlaup í Múlakvísl og sama dag mældust yfir 30 jarðskjálftar innan öskjunnar.

Skjálftavirkni undir Mýrdalsjökli var að mestu bundin við fimm svæði: (i) við Goðabungu rétt vestan við Kötluöskju; (ii) í norðaustur hluta öskjunnar, nálægt Austmannsbungu; (iii) norður af Hábungu, nálægt 1918 gosstöðvum; (iv) vestan við miðju öskjunnar; og (v) við Hafursárjökul, sem er lítill skriðjökull um fjórum kílómetrum suður af Hábungu. Um 43% mældra jarðskjálfta áttu upptök undir norðaustur hluta Kötluöskju, en 13% við Goðabungu. Skjálftavirkni við Goðabungu er yfirleitt mest á haustin (september-október), en fjöldi skjálfta nú í september er óvenju lítill miðað við fyrri ár.
Fimm skjálftar mældust undir og suður af Langjökli, stærsti tvö stig. 

Á Suðurlandsundirlendinu mældust nokkrir tugir skjálfta, stærstu um 1,5 stig. Upptök skjálftanna voru meðfram þekktum sprungum á svæðinu. Í september mældust margar skjálftahrinur við Hellisheiðarvirkjun í kjölfar þess að teknar voru í notkun nýjar niðurdælingarholur við virkjunina. Um 1500 skjálftar mældust, flestir litlir, um og innan við einn, en stærri skjálftar mældust einnig. Stærstu skjálftarnir fundust í Hveragerði og sá stærsti, 3,4 stig, sem varð 23. september fannst einnig á höfuðborgarsvæðinu. Frumniðurstöður úrvinnslu benda til þess að skjálftarnir raðist á a.m.k. 2-3 sprungur og að stefna þeirra sé austan við norður. Skjálftar hafa áður mælst við borun og prófun á borholum síðustu misseri, en aldrei annar eins fjöldi og nú. Fáir jarðskjálftar mældust út á Reykjaneshrygg. Á Reykjanesskaga var mesta virkni á Krýsuvíkursvæðinu, yfir hundrað skjálftar, og aðallega fyrstu vikur mánaðarins.

Eftirlitsfólk í september: Einar Kjartansson, Hjörleifur Sveinbjörnsson, Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, Matthew J. Roberts og Evgenía Ilyinskaya.