Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20110613 - 20110619, vika 24

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Tæplega 300 (298) jarðskjálftar mældust á landinu í vikunni. Mesta virknin var í Mýrdalsjökli og Langjökli en í þeim síðar nefnda mældust þrír stærstu skjálftar vikunnar.

Suðurland

Í Ölfusi mældust 25 smáskjálftar, flestir á Kross-sprungunni og við Raufarhólshelli. Auk þess urðu nokkrir smáskjálftar á Suðurlandsundirlendinu. 

Reykjanesskagi

Við vestan- og sunnanvert Kleifarvatn mældust 36 jarðskjálftar og var sá stærsti Ml 1,8. Sex skjálftar urðu á Reykjaneshrygg, stærstur Ml 2,6.

Norðurland

Í Tjörnesbrotabeltinu mældust tæplega 80 skjálftar, þar af um helmingur í Öxarfirði. Frá því á fimmtudegi og fram á sunnudag mældust um 20 skjálftar tæpum fjórum kílómetrum norðnorðaustur af Knarrarbrekkutanga á Tjörnesi. Stærsti skjálftinn var Ml 2,7 og var það jafnframt stærsti skjálftinn úti fyrir Norðurlandi í vikunni. Nokkrir smáskjálftar mældust við Mývatn og Þeistareyki. 

Hálendið

Rólegt var í Vatnajökli en innan við 10 skjálftar mældust í öllum jöklinum. Stærsti skjálftinn var Ml 2,5 undir Bárðarbungu. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust átta smáskjálftar.
Heldur líflegra var undir Geitlandsjökli í sunnanverðum Langjökli en þar mældust 50 skjálftar. Laust eftir klukkan eitt (01:15) eftir miðnætti laugardaginn 18. júní hófst skjálftaröð í Geitlandsjökli með skjálfta sem var um þrjú stig. Skjálftavirknin hélt áfram og kl. 08:13 varð annar skjálfti sem var heldur stærri en sá fyrsti eða 3,1 stig og fimm mínútum síðar kom einn enn sem var yfir þremur stigum en hann var 3,4 stig. Tilkynningar bárust frá sumarhúsaeigendum í Húsafelli um að stærsu skjálftarnir hefðu fundist þar. Skjálftaröðin hélt síðan áfram linnulítið fram á sunnudagsmorgun en þá fór að draga úr virkninni. 

Mýrdalsjökull

Undir Mýrdalsjökli mældust 53 jarðskjálftar, um 20 í vesturjöklinum og rúmlega 30 innan öskjunnar. Tvær hrinur urðu innan öskjunnar á 17. júní, sú fyrri hófst um kl. 17:30 og sú síðari um kl. 21:00. Báðar stóðu þær stutt yfir. Stærsti skjálftinn varð kl. 17:20 og var Ml 2,7. Þrír smáskjálftar mældust sunnan toppgígsins í Eyjafjallajökli. Tæpur tugur smáskjálfta mældist á Torfajökulssvæðinu. 

Sigþrúður Ármannsdóttir