Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20110725 - 20110731, vika 30

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Alls mældust 256 jarðskjálftar á landinu í vikunni. Talsverð virkni var í Mýrdalsjökli og einn skjálfti mældist við Heklu. Hlaup hófst úr vestari Skaftárkatli síðari hluta vikunnar.

Suðurland

Rétt upp úr klukkan sex á þriðjudagsmorgni 26. júlí varð skjálfti sem var 1,6 Ml við Heklu, hann var á u.þ.b. 20 kílómetra dýpi. Á Hengilssvæðinu mældust 14 smáskjálftar, flestir við Húsmúla og þar suður af. Fimmtán smáskjálftar urðu á Kross-sprungunni í Ölfusi og nokkrir á sprungunum á Suðurlandsundirlendinu. 

Reykjanesskagi

Tæplega 20 skjálftar mældust á Reykjanesskaganum, flestir við Kleifarvatn og Krýsuvík. Stærsti skjálftinn var tæp 2 stig. Lítið var um að vera á Reykjaneshrygg en einungis einn skjáflti mældist þar.

Norðurland

Tæplega 70 jarðskjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi í vikunni, dreifðir í tíma og rúmi. Stærsti skjálftinn var 2,5 Ml, skammt norðan Grímseyjar. Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu og Þeistareyki.

Hálendið

Frekar rólegt var í Vatnajökli en þar mældist rúmur tugur skjálfta, sá stærsti 2,1Ml við Kistufell. Um miðja viku sáust merki um aukna leiðni og aukið grugg á mælum í Skaftá við Sveinstind. Það var svo um hádegi á föstudag sem rennsli fór að vaxa og hlaup hófst úr vestari Skaftárkatlinum. Ekki sáust merki um aukinn hlaupóróa á jarðskjálftamælum á stöðvum í nágrenninu enda hlaupið lítið og fyrirstaða hugsanlega lítil þar sem hljóp úr þessum sama katli í fyrra. Á svæðinu norðan Vatnajökuls var einnig rólegt en tæpur tugur skjálfta mældist þar og einn smáskjálfti varð við Skjaldbreið, sunnan Langjökuls.

Mýrdalsjökull

Í Mýrdalsjökli mældust 90 skjálftar, heldur færri en í síðustu viku. Flestir voru skjálftarnir innan Kötluöskjunnar um 60 talsins. Laust fyrir klukkan eitt aðfaranótt miðvikudagsins 27. júlí varð grunnur skjálfti í vestanverðri öskjunni, rúmlega þrjú stig að stærð. Hann var á svipuðum slóðum og sigketill númer 7 sem hljóp úr árið 1999. Engin merki sáust um hlaupóróa eða aukna virkni í kjölfar skjálftans. Tilkynning barst um að skjálftinn hefði fundist í Kerlingardal austan Vikur. Tíu skjálftar mældust við Goðabungu og 22 við skriðjökul í sunnanverðum Mýrdalsjökli, á sama stað og í vikunni á undan. Einn skjálfti mældist við Surtsey og var hann tvö stig á um 15 kílómetra dýpi.

Sigþrúður Ármannsdóttir