| Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið |
Jarðskjálftar 20110815 - 20110821, vika 33

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér
Sérkort af
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
312 skjálftar voru staðsettir í vikunni og tvær sprengingar (í Þormóðsdal og sunnan Mýrdalsjökuls). Stærstur þessara
skjálfta varð við Grindavík þann 16. ágúst kl. 22:14:18,7 og var hann af stærðinni Ml 3,4. Skjálftinn fannst vel í Grindavík
og víðar.
Suðurland
Skjálftar mældust á víð og dreif um Suðurlandsbrotabeltið og allt austur í Vatnafjöll, en flestir þeirra urðu þó vestast.
Allmargir skjálftar mældust á Hengilssvæði, annars vegar við Hveradali (urðu allir 15 talsins aðfararnótt 20. ágúst,
aðallega á 3-6 km dýpi) og hins vegar við sunnan í Húsmúla (20 talsins, urðu 16.-20. ágúst á 1,5-5,5 km dýpi). Einnig mældust skjálftar vestar, t.d. SV Ölkelduháls og vestan Katlatjarna.
Reykjanesskagi
Á mánudagsmorgni, 15. ágúst, hófst jarðskjálftavirkni nærri Grindavík. Fram til hádegis á fimmtudag
hafa mælst þar yfir 40 skjálftar. Stærstu skjálftarnir urðu á mánudagsmorgni (kl.07:40, Ml 2,4 )á þriðjudagskvöld
(kl.22:14, Ml 3,4) og aðfararnótt miðvikudags (kl.01:16, Ml 2,9, kl. 01:34, Ml 3,2, kl 01:35, Ml 2,3) og á miðvikudagskvöld (kl.23:19, Ml 2,6 ). Skjálftarnir hafa flestir verið grunnir (2-6 km dýpi) og finnast því vel í bænum.
Tilkynningar bárust frá fólki sem fundu skjálftann, flestir þeirra voru í Grindavík en
þar hristust innanstokksmunir. Ein tilkynning barst jafnframt um að skjálftinn á
miðvikudagkvöld hafi fundist í túnunum í Garðabæ.
Tveir litlir skjálftar voru staðsettir í Bljáfjöllum, á 9-10 km dýpi, og tveir við Fagradalsfjall. Viðvarandi virkni hefur verið í nágrenni Kleifarvatns og þessa vikuna urður flestir skjálftarnir norðan Sveifluháls.
Norðurland
Einn skjálfti var staðsettur vestan við Bæjarfjall á Þeistareykjasvæði og þrír voru staðsettir við Kröflu (á 1, 3 og 3,4
km dýpi).
Stærstu skjálftarnir úti fyri Norðurlandi urðu lengst norður í hafi, á 68,57°N og voru yfir 3 að stærð en alls voru 12 skjáftar staðsettir norður af Tjörnesbrotabeltinu (67,57°N og norðar).
Flestir skjálftarnir í Tjörnesbrotabeltinu urðu austan Grímseyjar og þaðan til NNV (15 skjálftar). Sjö skjálftar urðu í og úti fyrir Öxarfirði og reitingur af skjálftum var staðsettur við Eyjafjörð og Skjálfanda.
Hálendið
Átta skjálftar voru staðsettir í Torfajökulsöskjunni. Þrír þeirra urðu við Torfajökul (stærð 1,1, 1,8 og 2,2) en hinir
fimm urðu vestast í öskjunni, eða suðvestur af Hrafntinnuhrauni, og voru allir undir Ml 1 að stærð.
Fjórir skjálftar voru staðsettir undir Langjökli, þar af einn undir Geitlandsjökli og þrír undir hábungu jökulsins, sá
stærsti var 3,3 að stærð og varð kl. 16:02 20. ágúst.
Tveir skjálftar voru staðsettir í Öræfajökli um hádegisbil á sunnudag. Þeir voru 1,3 og 1,6 að stærð og urðu um 3 km SA af
Hvannadalshnjúk. Fleiri skjálftar hafa svo mælst þar í viku 34. Það fyrir utan mældust varla nokkrir skjálftar í Vatnajökli (tveir litlir, norðan Bárðarbungu og
norðan Skeiðarárjökuls). Frá upphafi stafrænna skjálftamælinga (1991) hafa mælst á sjötta tug skjálfta í
Öræfajökli og í næsta nágrenni. Ef aðeins er skoðuð skjálftavirkni innan öskjunnar eru skjálftarnir þar
tæplega þrjátíu talsins og hafa þeir ýmist orðið stakir, tveir og tveir eða hrina nokkurra skjálfta eins og
sjá má á meðfylgjandi grafi.
Hrinan nú (í þessari og næstu viku) er sú þriðja í röðinni sem Veðurstofan hefur mælt síðan 1991. Hinar urðu í desember 2005 og september 2008.
Nokkrir skjálftar voru staðsettir við Herðubreið, norðan Upptyppinga og við Öskju.
Mýrdalsjökull
Í Mýrdalsjökli voru staðsettir 79 skjálftar. Átján þeirra urðu vestan Goðabungu (við Tungnakvíslarjökul), 12 á víð og
dreif um Kötluöskjuna sunnanverða, 23 skjálftar röðuðu sér eftir austanverðum og norðanverðum öskjurimanum (eða rétt sunnan hans, þ.e.
við katla nr. 10, 11 og 12 og sunnan Austmannsbungu og katla nr. 14, 15 og 16) og 25 skjálftar voru staðsettir
við suðurjaðar jökulsins, við Hafursárjökul eða Gvendarfell, líkt og í síðustu viku.
Einn skjálfti var jafnframt staðsettur undir Öldufellsjökli (sem skríður fram úr NA-hluta jökulsins).
Stærsti skjálftinn (Ml 2,9) varð norðan til í öskjunni 19. ágúst.
Sigurlaug Hjaltadóttir, Þórunn Skaftadóttir og
Sigþrúður Ármannsdóttir.