Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20111107 - 20111113, vika 45

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Hátt í þrjú hundruð jarðskjálftar mældust í vikunni. Flestir voru undir Mýrdalsjökli og við Hellisheiðarvirkjun, yfir og um hundrað. Stærsti jarðskjálftinn, 3,5 stig, varð 8. nóvember í sunnanverðri Kötluöskju. Hann fannst vel í Vík og nágrenni.

Reykjaneshryggur og -skagi

Þrír jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, einn við Eldeyjarboða, um 100 kílómetra frá landi, og tveir við Eldey, um 15 kílómetra frá landi. Þeir voru um og yfir tvö stig að stærð. Einn smáskjálfti, um eitt stig, varð við Reykjanestá. Nokkrir smáskjálftar voru staðsettir á Krýsuvíkursvæðinu og við Bláfjöll.

Suðurland

Um hundrað skjálftar mældust vestan við Húsmúla, stærsti Ml 2,2. Flestir urðu 12. nóvember eða 42. Nokkrir smáskjálftar urðu á Krosssprungu, Hengilssvæðinu og við Selfoss.
Á Suðurlandsundirlendi voru nokkrir smáskjálftar staðsettir á þekktum sprungum.

Mýrdalsjökull

Yfir hundrað skjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, langflestir undir Kötluöskju. Stærsti skjálftinn, 3,5 stig, varð 8. nóvember kl. 09:50. Hann varð fremur sunnarlega í öskjunni. Tveir skjálftar voru um þrír að stærð, en upptök þeirra voru norðar í öskjunni. Annar varð rétt fyrir kl. 15 11. nóvember og hinn um 08:45 12. nóvember.
Um tugur skjálfta mældist vestast í Mýrdalsjökli, stærsti Ml 1,6. Nokkrir smáskjálftar mældust undir Hafursárjökli eins og undanfarnar vikur.
Einn skjálfti var staðsettur á Torfajökulssvæðinu, undir Hrafntinnuhrauni, Ml 1,6.

Hálendið

Einn skjálfti, Ml 1,1, varð undir Geitlandsjökli.
Aðeins fjórir skjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli. Einn var við Hamarinn, einn norðan í Bárðarbungu, einn norður af Esjufjöllum og einn við Grænalón. Stærsti var Ml 1,4.
Austan við Öskjuvatn mældust sjö skjálftar, sá stærsti Ml 2,1. Aðrir skjálftar á svæðinu voru litlir og dreifðir.
Einn smáskjálfti mældist á Kröflusvæðinu og einn á Þeistareykjasvæðinu.

Norðurland

Rúmlega tuttugu skjálftar áttu upptök norður af landinu. Stærsti var norðvestan við Grímsey, Ml 2,7. Flestir urðu í Öxarfirði og austan við Grímsey. Nokkrir urðu úti fyrir Eyjafjörð og í Skjálfanda. Tveir skjálftar mældust sem áttu upptök norður á Kolbeinseyjarhrygg.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir