Veðurstofa Íslands
Eftirlits- og spásvið |
---|
[Fyrri mán.] | [Næsti mán.] | [Aðrir mánuðir og vikur] | [Jarðvárvöktun] |
Rétt eftir miðnætti þann 16. september hófst snörp hrina jarðskjálfta um 10 kílómetrum suðvestur af Geirfugladrangi. Stærsti skjálftinn sem var 3,4 að stærð, varð kl. 03:52. Um 30 skjálftar mældust í hrinunni sem var að mestu afstaðin klukkan sex um morguninn. Þann 1. september kl. 16:33 varð jarðskjálfti við Fagradalsfjall sem mældist 3,0 að stærð. Þar mældust rúmlega 50 skjálftar næstu daga. Við Kleifarvatn mældust 37 jarðskjálftar, sá stærsti sem varð 25. september, var 2,4 að stærð.
Í byrjun mánaðarins mældust um 170 jarðskjálftar í hrinu sem kom í kjölfar 4,6 skjálfta sem varð þann 30. ágúst um tveimur kílómetrum norðaustan við skíðasvæðið í Bláfjöllum. Eftirskjálftarnir voru á norður-suður línu sem nær langleiðina norður að Vífilsfelli. Þann 15. september varð jarðskjálfti, 2,6 að stærð, sunnar á sömu línu, skammt norðvestan við Geitafell. Virkni á þeim slóðum hélt áfram út mánuðinn, 30 skjálftar mældust þar til mánaðamóta.
Á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla mældust 60 skjálftar. Sá stærsti varð þann 17. septermber, 1,7 að stærð. Annars staðar á Suðurlandi mældust 130 skjálftar, þar af tæplega 50 á upptakasvæði Kross skjálftans 29. maí 2008, við Ölfusá.
Rúmlega 160 jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli í mánuðinum og er það svipaður fjöldi og í síðasta mánuði. Í vesturjöklinum voru rúmlega 70 skjálftar staðsettir, stærsti um tvö stig. Um 50 skjálftar mældust innan öskjunnar. Mesta virknin var í henni austanverðri og 23. og 24. september mældust nokkrir djúpir smáskjálftar þar. Rúmlega 20 smáskjálftar mældust við Hafursárjökul og nokkrir sunnan Öldufellsjökuls, í norðaustanverðum Mýrdalsjökli. Þrír smáskjálftar voru staðsettir í Eyjafjallajökli og á þriðja tug á Torfajökulssvæðinu. Einn skjálfti mældist um það bil fimm kílómetrum norðan við Surtsey og var hann um eitt stig.
Tveir smáskjálftar mældust í Geitlandsjökli í Langjökli og nokkrir við Skjaldbreið og Hlöðufell.
Um 40 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli, sem eru heldur færri en undanfarna mánuði. Flestir urðu undir Lokahrygg, aðallega við vestari Skaftárketil, en lítið hlaup varð úr katlinum í lok ágúst. Nokkrir skjálftar mældust norðan í Bárðarbungu, við Kistufell og Kverkfjöll. Stærstu skjálftarnir voru um tvö stig. Einn skjálfti, um tvö stig, átti upptök undir Tungnafellsjökli og tveir (milli eitt og tvö stig) urðu austan Fjórðungsöldu á Sprengisandi.
Norðan Vatnajökuls mældust um 60 skjálftar. Fimmtán voru staðsettir í hnappi undir austurbrún Öskju, stærsti 2,1, og tveir undir norðvestur brún eldstöðvarinnar. Önnur skjálftavirkni á svæðinu var mest í kringum Herðubreiðartögl, þ.m.t. lítil hrina smáskjálfta, um 15 talsins, norðvestan við töglin. Skjálftarnir voru allir um og innan við einn að stærð. Fjórir skjálftar, stærsti um 1,5, mældust við Kollóttudyngju 19. október.
Rúmlega 600 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti.
Af þessum skjálftum voru rúmlega 470 staðsettir í jarðskjálftahrinu
í vikunni frá 14. til 21. september syðst í Eyjafjarðarál, milli Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins
og sigdals suður af Kolbeinseyjarhrygg. Stærstu skjálftarnir urðu þann 19.
september kl. 07:57 (4,3 að stærð) og 08:28 (4,0) og tveir þann 20.
september kl. 09:27 (4,1) og 19:42 (4,2). Þeir fundust allir greinilega á
Siglufirði og Ólafsfirði. Sá fyrsti fannst einnig á Sauðárkróki og sá síðasti
á Dalvík, Akureyri og Húsavík. Tíu skjálftar í viðbót yfir þrjá að
stærð mældust.
Um 30 smáskjálftar mældust í kringum Flatey og um 30 inn í
Öxarfirði, allir voru minni en 2,0 stig. Tæplega 40 jarðskjálftar áttu
upptök austan Grímseyjar. Stærsti skjálfti þar var 2,9 stig þann 2.
september kl. 15:25. Þrír skjálftar 2,0-2,6 að stærð voru staðsettir
suðvestan Kolbeinseyjar þann 18. september. Á Skjálfanda var fremur rólegt.
Nokkrir smáskjálftar mældust á Flateyjarskaga og í nágrenni Öxarfjarðar,
tæplega fimm á svæðinu við Þeistareyki og um 10 í Kröfluöskjunni.
Eftirlitsfólk í september: Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, Sigþrúður Ármannsdóttir, Martin Hensch og Einar Kjartansson