Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20120227 - 20120304, vika 09

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Vikan var tiltölulega róleg en 245 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar. Skjálftaröð varð úti fyrir mynni Eyjafjarðar, á miðvikudgskvöld og önnur sunnan Hafnarfjarðar laust eftir miðnætti á fimmtudegi. Í henni mældist stærsti skjálfti vikunnar, 4,2 stig.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu mældust 53 jarðskjálftar, flestir (46) við Húsmúla á Hellisheiði. Í Ölfusi mældust 10 skjálftar og á báðum þessum svæðum voru stærstu skjálftarnir tvö stig. Rólegt var á Suðurlandsundirlendi.

Reykjanesskagi

Klukkan 00:29 aðfararnótt fimmtudags varð jarðskjálfti, 3,6 að stærð, um það bil tveimur kílómetrum suðaustan Helgafells, sunnan Hafnarfjarðar. Hann fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Hálftíma síðar eða klukkan 01:03 varð annar mun stærri á svipuðum slóðum og var hann 4,2 að stærð. Fjöldi tilkynninga barst um að hann hefði einnig fundist á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni en auk þess bárust tilkynningar frá Hvanneyri, Keflavík og allt austur í Fljótshlíð og Skaftártungur. Skjálftarnir voru nokkuð grunnir, flestir á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi. Á þriðja tug eftirskjálfta, nokkrir stærri en tvö stig og einn tæplega þrjú, fylgdi í kjölfarið, flestir á fimmtudeginum en nokkrir síðar í vikunni. Skjálftarnir hafa verið endurstaðsettir með aðferð sem minnkar staðsetningaróvissu innbyrðis á milli skjálftanna (afstæðar staðsetningar). Þeir virðast falla á rúmlega 2 km langa N-S sprungu (sem hallar 70° til vesturs). Brotlausnir eftirskjálftanna benda til þess að hreyfingin á sprungunni hafi aðallega verið hægri-sniðgengishreyfing ásamt minni siggengisþætti, þ.e. vestari hlutinn hreyfðist til norðurs og niður og sú austari til suðurs og ögn upp. Þetta er sams konar hreyfing og verður á stórum sprungum í Suðurlandsbrotabeltinu.

Norðurland

Rúmlega 80 jarðskjálftar mældust á og úti fyrir Norðulandi, þar af 60 úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Klukkan 22:06 á miðvikudagskvöld hófst skjálftaröð, um það bil 10 kílómetrum norðvestur af Gjögurtá, með skjálfta sem var 3,7 að stærð. Í kjölfarið fylgdu 60 eftirskjálftar fram á fimmtudagskvöld, þar af einn sem varð fimm mínútum eftir þann stærsta og var hann 2,8 að stærð. Stærsti skjálftinn fannst meðal annars á Ólafsfirði, Siglufirði, Dalvík og í Svarfaðardal. Rólegt var annars staðar á Norðurlandi.

Hálendið

Ríflega 10 jarðskjálftar mældust í Vatnajökli, allir innan við tvö stig. Svipaður fjöldi smáskjálfta mældist á svæðinu norðan Vatnajökuls og einn í Hofsjökli. 

Mýrdalsjökull

Tæplega 40 skjálftar mældust í vikunni, helmingurinn innan Kötluöskjunnar og þar varð stærsti skjálftinn í jöklinum, 28. febrúar og var hann tvö stig. Fjórir smáskjálftar urðu í vestanverðum Hafursárjökli og sami fjöldi á Torfajökulssvæðinu.

Sigþrúður Ármannsdóttir