Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20120611 - 20120617, vika 24

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 300 jarðskjálftar mældust í vikunni. Aukin virkni var innan Kötluöskjunnar og í framhaldinu varð smáhlaup í Múlakvísl. Stærsti skjálfti sem mældist með SIL-mælakerfinu var rúm þrjú stig og í nágrenni Jan Mayen.

Suðurland

Rólegt var á Suðurlandsundirlendinu og engir skjálftar við Húsmúla.

Reykjanesskagi

Smáhrina hófst við Eldey á Reykjaneshrygg um miðja nótt þann 12. júní og stóð hún fram eftir morgni. Þrettán skjálftar mældust, allir litlir. Nokkrir smáskjálftar mældust við Kleifarvatn og Bláfjöll.

Norðurland

Rúmlega 80 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu þar af 30 í Öxarfirði og átta á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Stærsti skjálftinn á Norðurlandi var, 2,7 að stærð, norður af Grímseyjar. Tveir skjálftar mældust á Kolbeinseyjarhrygg og stærsti skjálfti vikunnar varð við Jan Mayen rúm þrjú stig.

Hálendið

Rólegt var í Vatnajökli. Sjö skjálftar mældust við Kistufell og var það helmingur allra skjálfta í jöklinum þessa viku. Seinni part laugardagsins 16. júní varð smáhrina á Sprengisandi og stóð hún fram undir miðnætti. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust 25 smáskjálftar þar af fimm við Öskju. 

Mýrdalsjökull

Rúmlega 80 skjálftar mældust innan Kötluöskjunnar og er það talsverð aukning frá síðustu viku þegar 50 skjálftar mældust. Laust fyrir klukkan fimm, mánudagsmorguninn 11. júní, hófst skjálftahrina sunnarlega í öskunni og stóð hún yfir í nokkrar klukkustundir og mældust um það bil 30 skjálftar. Í framhaldinu jókst vatnsrennsli í Múlakvísl auk þess sem rafleiðni hækkaði og bendir það til þess að jarðhitavatn hafi runnið út í ána. Um smáhlaup var að ræða og sóð það út alla vikuna. Nokkrir skjálftar mældust í vestanverðum jöklinum og við Hafusárjökul. Tveir skjálftar mældust í Geitlandsjökli. 

Sigþrúður Ármannsdóttir