Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20120716 - 20120722, vika 29

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 240 jarðskjálftar mældust með SIL kerfi Veðurstofu Íslands í vikunni 16.-22. júlí 2012. Stærsti skjálftinn (Ml 2,7) átti upptök undir Mýrdalsjökli miðvikudaginn 18. júlí kl. 19:45. Samtals um 75 smáskjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli, þar af tæplega 55 innan öskjunnar. Burt séð frá því, var vikan fremur róleg. Smáhrina mældist úti á Reykjaneshrygg þann 17. júlí, og nokkrir smáskjálftar urðu á þekktum sprungum á Reykjanesskaga, Suðurlandsundirlendinu og Tjörnesbrotabeltinu.

Reykjanesskagi

12 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg milli Eldeyjar og Geirfugladrangs, þar af 7 í skjálftahrinu um kvöldið þann 17. júlí, sá stærsti Ml 2,6 var kl. 19:16. Einn skjálfti Ml 1,2 mældist 30 km vestan Surtseyjar þann 18. júlí. Á Reykjanesskaga mældust aðeins 20 smáskjálftar í vikunni, allir innan við Ml 1,6 að stærð. Flestir skjálftar voru staðsettir í nágrenni Kleifarvatns og 3 við Keili.

Suðurland

Tæplega 30 smáskjálftar mældust á Suðurlandi og upptök þeirra voru á þekktum sprungum á svædinu frá Hengli og austur undir Selsund. Þar af voru rúmlega 20 staðsettir á Ölfussvæðinu og stærsti skjálftinn var Ml 1,4 norðan Hveragerðis þann 16. júlí. Aðeins tveir skjálftar (Ml<1) mældust í norðurhluta Ingólfsfjalls, þar sem nokkur virkni var vikunar á undan.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 75 jarðskjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli í vikunni. Þar af um 55 innan Kötluöskjunnar, um 10 í nágrenni Goðabungu (Ml 0,2-1,7) og nokkrir við Hafursárjökul (Ml 0,1-1,1). Stærsti skjálftinn var Ml 2,7 að stærð, en hann varð í vestanverðri Kötluöskjunni þann 18. júlí kl. 19:45. Sjö eftirskjálftar fylgdu strax í kjölfarið, allir voru minni en Ml 1,5. Skjálftarnir voru allir grunnir og líklega jarðhitatengdir. Í lok vikunnar var aftur rólegt í Mýrdalsjökli. Tveir skjálftar mældust undir Torfajökli, Ml 0,3 og Ml 1,7.

Hálendið

Á hálendinu var líka fremur rólegt í þessari viku. Um 20 skjálftar mældust undir Vatnajökli, allir innan við Ml 1,5 að stærð. Flestir voru við Hamarinn í vesturjöklinum, einn skjálfti (Ml 1,1) var staðsettur í Öræfajökli og 3 (Ml 0,9-1,5) í nágrenni Kverkfjalla. 8 smáskjálftar (Ml 0,3-1,1) voru staðsettir undir Öskju, 4 í nágrenni Kistufells og 5 í nágrenni Tungnafellsjökuls. Einn skjálfti (Ml 0,7) mældist í Borgafirði vestan Langjökuls þann 20. júlí og 3 skjálftar (Ml<1) urðu norðan Þingvalla.

Norðurland

Rúmlega 35 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu. Stærstu skjálftarnir voru Ml 1,8 (16. júlí) og Ml 2,1 (18. júlí) við Kolbeinsey, og Ml 1,7 (19. júlí) í Öxarfirði. Flestir skjálftar urðu í Öxarfirði og nokkrir smáskjálftar á Húsavíkur-Flateyar sprungunni og norðaustan Grímseyjar. Inni á landi varð einn skjálfti Ml 1,4 við Þeistareyki og nokkrir smáskjálftar Ml 0,5-1,0 í Kröflu.

Martin Hensch