Veðurstofa Íslands
Jarðeðlissvið

Jarðskjálftar 20120903 - 20120909, vika 36

[Skjálftalisti] [Fyrri vika] [Næsta vika] [Aðrar vikur] [Jarðeðlissvið]

PostScript-skrá
Forrit sem les PostScript-skrár má nálgast hér

Sérkort af

[Suðurlandi] [Reykjanesi] [Hengilssvæðinu] [Bárðarbungu] [Lang-og Hofsjökli] [Öskju] [Mýrdals- og Eyjafjallajökli] [Norðurlandi]

Lýsing á skjálftavirkni vikunnar

Um 270 skjálftar mældust í vikunni. Flestir voru eftirskjálftar 4,6 skjálftans sem varð við Bláfjöll 30. ágúst.

Reykjanesskagi

Austast á Reykjanesskaganum, milli Bláfjallaskála og Vífilsfells, varð skjálfti 4,6 að stærð 30. ágúst. Upptök hans voru á þekktri jarðskjálftasprungu á tæplega sex kílómetra dýpi. Um 200 eftirskjálftar mældust, flestir dagana 3. og 4. september eða um 120. Stærsti þeirra var 2,6 stig. Vestar á skaganum mældust um tugur skjálfta. Þeir voru dreifðir í tíma og rúmi. Sá stærsti var um tvö stig og átti upptök sunnan við Kleifarvatn. Tveir skjálftar mældust með upptök út á Reykjaneshrygg, báðir innan við tvö stig.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu, í Ölfusi og Flóa mældust rúmlega 40 smáskjálftar, allir innan við tvö stig. Flestir voru við Raufarhólshelli og á syðri enda Krosssprungu. Nokkur smáskjálftavirkni var við Húsmúla sunnudaginn, 9. september. Á Suðurlandsundirlendinu mældust um tugur skjálfta, allir litlir.

Mýrdalsjökull

Rúmlega 30 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli. Helmingur átti upptök í vestanverðum jöklinum, um tugur innan Kötluöskju og nokkrir við Hafursárjökul. Stærstu voru um tvö stig. Einn grunnur smáskjálfti, 0,8 stig, varð undir Eyjafjallajökli og einn á Torfajökulssvæðinu, 0,7 stig.
Einn smáskjálfti mældist norðan við Surtsey, 1,1 stig.

Hálendið

Engin skjálftavirkni mældist í vestara gosbeltinu í vikunni. Rúmur tugur skjálfta mældist undir Vatnajökli, nokkrir á Lokahrygg, við Kverkfjöll, Bárðarbungu og Kistufell. Stærsti var um tvö stig við Kverkfjöll. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust aðeins þrír skjálftar, tveir norðvestan við Öskju og einn vestan við Herðubreið. Þeir voru allir innan við tvö stig að stærð. Vestan við Fjórðungsöldu, norðan Tungnafellsjökuls, mældust þrír skjálftar, stærsti um 1,5 stig. Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu og á Þeistareykjasvæðinu.

Norðurland

Innan við 20 skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu, flestir í Öxarfirði. Stærsti var tvö stig með upptök í Öxarfirðinum.

Bergþóra S. Þorbjarnardóttir